Hörður Þórhallsson, framkvæmdastjóri Stjórnstöðvar ferðamála, segir að mikil tækifæri séu fyrir ríki eða sveitarfélög að bjóða út rekstur salerna. „Ég lít á það sem viðskiptatækifæri, að bjóða bara út reksturinn á þessum salernum. Ég veit að það eru einhverjir einstaklingar sem hafa verið að velta þessu fyrir sér. Þannig að það er í farvegi hjá okkur.“

Hörður segir að Stjórnstöð ferðamála vinni nú að því að koma tillögum um uppbyggingu á ferðamannastöðum inn í fjárlagagerð næsta árs, meðal annars hvað varðar salernismál. Hann segir að ekki megi gleyma því að stjórnstöðin hafi verið stofnuð „korter fyrir tólf“ í fjárlagagerð.

„Það hefði verið mjög gott ef stjórnstöðin hefði verið sett á koppinn einhverjum mánuðum, hálfu ári fyrr. Það hefði verið hægt að vinna miklu fleiri tillögur inn í fjárlagagerð. Það gafst ekki tími til þess,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .