Í gær skrifaði ég um leiðtogakreppuna sem ríkir í íslensku stjórnmálalífi. Allir flokkar eiga að mínu mati við leiðtogavanda að stríða og það er að bitna á allri þjóðinni. Á meðan enginn tekur af skarið í stjórnmálalífinu gerist lítið utan þess.

Í skrifum mínum í gær tók ég fram að ég ætlaði að fjalla um hvern flokk fyrir sig. Einfaldast er að fjalla um flokkanna í þeirri röð sem endurspeglar stærð þeirra á Alþingi. Samfylkingin er stærsti flokkurinn á þingi í dag þannig að við byrjum á henni.

Í kjölfar efnahagshrunsins og alvarlegra veikinda Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur , þáverandi formanns flokksins, var hafin örvæntingafull leit af nýjum leiðtoga. Bryndís Hlöðversdóttir kom sterklega til greina en ekki náðist sátt um hana á meðal helstu ráðamanna flokksins. Össur Skarphéðinsson hafði takmarkaðan áhuga og las rétt í aðstæður með því að taka ekki við keflinu. Jóhanna Sigurðardóttir var því dúkkuð upp í formannsstól, sem þótti auðvitað rétt svona PR lega séð. Hún var vinsæl, var talin vinur litla mannsins og hafði setið á þingi frá árinu 1978 (fyrir þrjá flokka).

Það vita þó allir að Jóhanna er ekki komin til að vera. Á flokksráðsfundi fljótlega eftir að hún tók við ítrekaði hún þó að hún væri ekki skammtímaformaður og ef ég man rétt hótaði hún því að verða 101 árs gömul. Vinsældir Jóhönnu eru þó i sögulegu lágmarki og þó svo að það ráði ekki endilega ferðinni þá flýtir það án efa fyrir leitinni að næsta formanni.

Traust almennings til Jóhönnu Sigurðardóttur, frá des. 2008.
Traust almennings til Jóhönnu Sigurðardóttur, frá des. 2008.
© vb.is (vb.is)

Traust almennings til Jóhönnu frá því í desember 2008 skv. könnunum MMR.

Það eru ekki háir skattar, hátt bensínverð og framlenging á kreppunni sem gerir Jóhönnu óvinsæla. Það sem gerir Jóhönnu óvinsæla er reiði hennar og biturð út í allt og alla. Ef einhvers staðar er friður vill Jóhanna valda ófriði. Það sem Jón og Gunna eru vonsvikin með er að á sama tíma og skattar, matur og bensín er að hækka, ekkert er að gerast í atvinnumálum og skuldaumræðan ætlar allan tíma að taka - leggur Jóhanna í stríð um mál sem skipta engu máli. Það er sótt um aðild að ESB sem meirihluti þjóðarinnar er á móti, það er búið til eitthvað stjórnlagaþingsbull sem öllum er sama um og svo gera Jón og Gunna sér alveg grein fyrir því að það að úthúða nýfrjálshyggjunni og Sjálfstæðisflokknum í tíð og ótíma gerir ekkert fyrir budduna þeirra þó það veiti þeim allra reiðustu tímabundna vímu.

En hvað um það, það er ekki langt í að Samfylkingin þurfi að skipta um formann. Og jafnvel styttra en marga grunar. En líkt og í öðrum flokkum er ekki eins og það bíði góðir leiðtogar í röðum eftir því að taka við.

Dagur og Árni Páll úti í kuldanum

Þó svo að varaformaðurinn, Dagur B. Eggertsson , sé de facto borgarstjóri - þá er hann ekki borgarstjóri. Samfylkingin missti gífurlegt fylgi í borgarstjórnarkosningunum í fyrra og síðan þá hefur Dagur haldið sig til hlés, í það minnsta opinberlega. Dagar Dags í pólitík eru auðvitað ekki taldir, en Jón og Gunna eru þó farin að sjá í gegnum allar langlokurnar og Dagur á langt í land ætli hann sér forystuhlutverk.

Landsfundur samfylkingarinnar
Landsfundur samfylkingarinnar
© Haraldur Jónasson (VB MYND/HARI)

Dagur B. Eggertsson og Árni Páll Árnason láta vel að hvor öðrum á landsfundi Samfylkingarinnar árið 2009 þegar þeir kepptust um varaformannsembættið. Þeir eru samt ekki vinir í alvöru.

Erfitt er að sjá að keppinautur Dags um varaformannsætið, Árni Páll Árnason , verði formaður í náinni framtíð. Fyrir utan það að vera brenndur af setu í þeim tveimur ráðuneytum sem hann hefur veitt forstöðu síðustu árin og þær óvinsælu ákvarðanir sem hann hefur þurft að taka, þá á Árni Páll ekki mikið bakland í flokknum. Jafnvel þó hann geti verið klókur í orðræðunni, þyki myndarlegur (sem er gott í pólitík) og að sumu leyti klár, þá finnst mörgum innan Samfylkingarinnar hann vera tækifærissinnaður og vís til að takast á við og ræða um verkefni sem hann hefur ekkert vit á. Það gengur bara í mjög stuttan tíma. Allt framangreint á líka við Dag en hann hefur samt meira fylgi innan flokksins. Samfylkingin mun leita sér að karismatískum formanni og þrátt fyrir að vera myndarlegir og góðir ræðumenn á köflum eru það hvorki Dagur né Árni Páll sem verða á lista hinna útvöldu skv. heimildum þess sem hér skrifar.

Björgvin G. og Katrín til alls líkleg en Guðbjartur er líklegastur

Árið 2003 komu þau Ágúst Ólafur Ágústsson , Björgvin G. Sigurðsson og Katrín Júlíusdóttir inn á þing fyrir Samfylkinguna. Þau þrjú voru fulltrúar nýrrar kratakynslóðar og lofuðu góðu. Síðan þá eru auðvitað liðin átta ár og margt gerst á þeim tíma. Ágúst Ólafur var til skamms tíma varaformaður flokksins en einhvern veginn tókst honum aldrei að stimpla sig almennilega inn og byggja upp sterkan trúverðugleika, jafnvel þó hann léti sér vaxa skegg. Hann er nú horfinn af vettvangi stjórnmálanna.

Fyrir 3-4 árum var litið til Björgvins G. sem einn af framtíðarleiðtogum Samfylkingarinnar. Hann er ungur en samt fullorðinslegur, með sína djúpu og sannfærandi rödd og virðist vera fljótur að hugsa og snöggur til svara. Honum var þó gerður sá bjarnargreiði að verða viðskiptaráðherra í hrunstjórninni svokölluðu og hefur enn ekki náð sér af því. Það má þó ekki gleyma því að síðan þá hefur Björgvin rúllað upp prófkjöri í sínu kjördæmi og það má alls ekki afskrifa hann. Ef honum tekst að byggja upp trúverðugleika sinn á ný, og ef hann hefur sjálfur áhuga, er hann vafalaust einn af framtíðarleiðtogum flokksins. En munum að það er stutt þangað til Jóhanna hættir og tími Björgvins til að sanna sig á ný gæti þannig verið of stuttur. Ég ætla samt að spá því að Björgvin hristi hrunstimpilinn af sér með tímanum.

Katrín Júlíusdóttir stendur ein eftir upprétt af þessum þremur og ég veit fyrir víst að margir vilja sjá hana sem formann. Það er þó eins með hana og Björgvin, það verður að teljast ólíklegt að annað hvort þeirra sé næsti formaður þar sem stutt er í brotthvarf Jóhönnu.

Katrín Júlíusdóttir
Katrín Júlíusdóttir
© BIG (VB MYND/BIG)

Katrín Júlíusdóttir er án efa einn af framtíðarleiðtogum Samfylkingarinnar, hafi hún sjálf áhuga. Hvort hún verður formaður mun tíminn einn að leiða í ljós.

Margir innan Samfylkingarinnar kalla eftir því að Össur taki aftur við stjórnartaumunum. Hann hefur þó takmarkaðan áhuga á því enda hefur hann aldrei notið sín betur í pólitík síðan hann var felldur úr formannsstóli fyrir sex árum síðan. Menn skulu þó ekki gleyma því að Össur er manna klókastur á þessu sviði og til alls líklegur. Jafnvel þótt hann verði ekki formaður sjálfur (sem er alls ekki útilokað þó það sé ólíklegt) þá mun hafa meiri áhrif á það en nokkur annar hver verður formaður.

Það má gera fastlega ráð fyrir því að Guðbjartur Hannesson taki við formannsembættinu af Jóhönnu. Guðbjartur hefur þessa föðurlegu kennaraímynd og nokkuð flekklausan feril. Hann er vel liðin innan sem utan flokksins. Hann er ekki framtíðarleiðtogi flokksins en gæti vökvað túnin eftir þurrkatíð Jóhönnu og skapað um leið farveg fyrir nýjan framtíðarleiðtoga.

Guðbjartur Hannesson heilbrigðis- og félagsmálaráðherra.
Guðbjartur Hannesson heilbrigðis- og félagsmálaráðherra.
© Axel Jón Fjeldsted (VB MYND/AXEL JÓN)

Að öllu óbreyttu má gera ráð fyrir því að Guðbjartur Hannesson, heilbrigðis- og félagsmálaráðherra, verði næsti formaður Samfylkingarinnar.

Samfylkingin hefði þurft á Ingibjörgu Sólrúnu að halda

Það er ekki að sjá að nokkur utanaðkomandi taki við stjórnartaumunum í Samfylkingunni fljótlega. Reyndar er sá galli á innan flokksins að það má ekkert ræða um nýja leiðtoga. Opinbera línan er sú að Jóhanna sé ekki skammtímaformaður og allt tal um annan formann fer bara fram í skúmaskotum og í útlöndum. Á meðan þurfa flokksmenn, og þá sérstaklega þingflokkurinn, að taka þátt í allsherjarstríði Jóhönnu hvort sem þeim líkar betur eða verr. Í því samhengi skipta Jón og Gunna engu máli þó svo að þessi vitleysa bitni fyrst og fremst á þeim. Samfylkingin þarf þannig að bíða eftir framtíðarleiðtoganum  um sinn.

Margir af yngri og óreyndari þingmönnum flokksins kunna ekki leikreglur stórra þingflokka og það er enginn til að halda liðinu saman. Það sýndi sig best í landsdómsmálinu þar sem Jóhanna og Össur misstu stjórnina á þingflokknum og það situr enn í mörgum innan flokksins.

Flokkurinn hefði þurft á leiðtoga á borð við Ingibjörgu Sólrúnu að halda, og þá helst hana sjálfa, sl. 2 ár. Hún hefði látið ESB umsóknina, stjórnlagaþingið og hvað sem þessi gæluverkefni öll heita eiga sig á meðan Jón og Gunna væru að ná sér eftir efnahagshrunið. Ekkert þessara verkefna gera pyngju Jóns og Gunnu þykkari sem er þó það eina sem þau sækjast eftir. Ingibjörg Sólrún hefði lesið rétt í aðstæður og látið gæluverkefnin víkja fyrir nauðsynlegum verkefnum.

Sá aðili sem nær að sameina flokkinn um eitthvað annað en hatur á Sjálfstæðisflokknum og koma um leið með nýjar hugmyndir að betra samfélagi verður framtíðarleiðtogi flokksins. Á því er enginn efi.

Á meðan ríkir algjör forystukreppa í Samfylkingunni og það sést á hverjum degi. Samfylkingin er þar ekki ein á báti þar sem Sjálfstæðisflokkurinn á að sumu leyti við sama vandamál að stríða. Við kíkjum á Sjálfstæðisflokkinn á morgun.

Ríkisstjórnarfundur
Ríkisstjórnarfundur
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Þó svo að Össur Skarphéðinsson hafi kosið að halda sig til hlés (og einbeita sér að ESB umsókninni) þá mun hann hafa mikið um það að segja hver verður næsti formaður Samfylkingarinnar. Áhrif Össurar innan flokksins eru margföld á við áhrif núverandi formanns.