Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,4% í 5,6 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Þá hækkaði gengi bréfa hjá 18 af 23 félögum á markaði í viðskiptum dagsins.

Mesta veltan var með hlutabréf Icelandair sem hækkuðu mest allra félaga á markaði, eða um 3,6% í 1,3 milljarða króna viðskiptum. Gengi flugfélagsins stendur nú í 2,03 krónum á hlut.

Play, sem skráð er á First North, hækkaði einnig um 6,2% í um 30 milljón króna viðskiptum.

Bankarnir á markaði hækkuðu talsvert í viðskiptum dagsins. Gengi bréfa Íslandsbanka hækkaði um 2,8% í 600 milljón króna viðskiptum og Kvika banki hækkaði um 2,6% í 200 milljóna veltu. Þá hækkaði Síldarvinnslan um 3% og Vís um 2%.

Einungis tvö félög lækkuðu í viðskiptum dagsins. Alvotech lækkaði um hálft prósentustig í 360 milljón króna viðskiptum. Gengi félagsins stendur nú í 1.990 krónum á hlut. Þá lækkaði Hagar um 1,5% í 585 milljóna veltu.