Þjónustu- og tæknifyrirtækið Fálkinn Ísmar gekk í fyrra frá kaupum á öllu hlutafé Iðnvéla ehf., sem fæst við innflutning, sölu og þjónustu á nýjum tækjum og vélum til iðnaða. Kaupverðið nam 180 milljónum króna samkvæmt nýbirtum ársreikningi Fálkans Ísmars.

Iðnvélar ehf. var í 50% eigu Árstíðanna ehf. sem er í 90% eigu Jóns Hólmars Steingrímssonar. Þá átti Hjörtur Pálmi Jónsson 40% hlut í Iðnvélum í gegnum Iðn-ak ehf og Jón S Magnússon fór með 10% hlut í gegnum 3D3 ehf.

Iðnvélar ehf., sem var stofnað árið 1974, velti 656 milljónum króna og hagnaðist um 36 milljónir eftir skatta á árinu 2022, síðasta rekstrarári fyrir söluna. Eignir félagsins í árslok 2022 voru bókfærðar á 314 milljónir og eigið fé var um 89 milljónir.

Kaupsamningur um kaup Fálkans Ísmars á Iðnvélum var undirritaður þann 6. desember 2022. Samkeppniseftirlitið samþykkti viðskiptin þann 26. maí 2023 og eigendaskipti eignarhlutanna urðu þann 6. júní 2023. Starfsemi Iðnvéla var flutt til starfsstöðva Fálkans Ísmars ehf. að Dalvegi 10-14 í Kópavogi í fyrra.

Fálkinn Ísmar er í 51% eigu Sjávarsýnar, fjárfestingarfélags Bjarna Ármannssonar, og 49% eigu Freyju framtakssjóðs sem er í rekstri Kviku eignastýringar.

Kaupin á Iðnvélum er önnur yfirtaka félagsins, sem hét áður Ísmar, á undanförnum þremur árum. Ísmar keypti allt hlutafé Fálkans hf. árið 2021 og í kjölfarið tók sameinað félag upp nafnið Fálkinn Ísmar.

Veltan jókst um 35% í fyrra

Rekstrartekjur Fálkans Ísmars nam 2.621 milljón króna á árinu 2023 og jókst um 35% frá árinu 2022 þegar félagið velti 1.939 milljónum króna. Rekstrargjöld jukust um 33% og námu 2.283 milljónum.

Rekstrahagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) jókst um 49% milli ára, úr 227 milljónum í 339 milljónir. Fálkinn Ísmar hagnaðist um 242 milljónir króna eftir skatta í fyrra samanborið við 162 milljónir árið áður.

Eignir félagsins voru bókfærðar á 1.336 milljónir króna í árslok 2023 samanborið við 867 milljónir ári áður. Eigið fé félagsins nam 659 milljónum og eiginfjárhlutfall var 49,3%. Félagið hyggst greiða út 300 milljónir króna í arð í ár.

Fálkinn Ísmar sérhæfir sig í vélahlutum, véltæknivörum, raftæknivörum, hátæknivörum líkt og mælitækjum, vélstýringum sem nýta sér GPS tækni, lasertæki, búnað til sjómælinga, hitamyndavélar, fjarskiptabúnað, loftræsibúnað og hússtjórnarkerfi.

Lykiltölur / Fálkinn Ísmar

2023 2022
Tekjur 2.621 1.939
Eignir 1.336 867
Eigið fé 659 417
Hagnaður 242 162
- í milljónum króna