Í bókinni Sögur handa Kára sem Ólafur Ragnar Grímsson gaf út árið 2020 er meðal annars kafli um Roman Abramovich, eiganda Chelsea, sem nú er kominn á svartan lista breskra stjórnvalda. Forsetahjónin Ólafur Ragnar og Dorrit Moussaieff voru sérstakir gestir Romans á fyrsta heimaleik Chelsea eftir að hann keypti liðið árið 2003.

Aðdragandinn var sá að forsetahjónin sóttu ráðstefnu í Alaska. Þaðan bauð Roman þeim að heimsækja Chukotka, austasta hluta Rússlands, þar sem Roman var þá ríkisstjóri. Eftir að hafa heimsótt hirðingja á svæðinu bauð Roman Ólafi og Dorrit að fljúga með sér á einkaflugvél sinni til London, sem er þrettán tíma flugferð, og vera gestir hans á Stamford Bridge heimavelli, Chelsea.

Ólafur segir frá því að gleymst hafi að gera ráð fyrir Roman í matsal fyrir leikinn. Honum og forsetahjónunum hafi að lokum verið vísað til borðs með stjórnarmönnum gestaliðsins frá Leicester City. Einn stjórnarmannanna hafi spurt Roman hvort hann væri ekki í olíubransanum og bætti svo stoltur við að hann ræki sjálfur bensínstöðvar í Leicester. „Hann hafði greinilega engan skilning á því hve hlægilegt svarið var í augum Roman sem gaf okkur merki um að nú skyldum við fara, nóg væri komið af þessum móttökum. Roman gekk út og hefur ekki komið í þennan matsal síðan," segir Ólafur í bókinni.

Þegar í stúkunna var komið hófu fjörutíu þúsund stuðningsmenn Chelsea að syngja nafn rússneska ólígarkans Roman undir laginu La donna è mobile. Við það hugsaði Ólafur: „Nú er kalda stríðið örugglega búið.“

Eftir leikinn buðu Dorrit og Ólafur bæði Roman og þáverandi eiginkonu hans Irinu Abramovich út að borða. Rússnesku hjónin hafi lítt þekkt inn á London en Dorrit valdi sinn uppáhaldsstað, River Cafe við Thames ánna. Þar hafi þau fengið borð úti, á besta stað. „Allt í einu þurfi Roman að fara á klósettið. Hann kom svo til baka og andlitið ljómaði af gleði,“ skrifar Ólafur.

Ólafur segir maðurinn við næstu skál á klósettinu hafi byrjað að tala við Roman á rússnesku: „Mig langar að taka í höndina á þér og þakka þér fyrir að þú bjargaðir Chelsea.” Maðurinn hafi verið prófessor í rússneskum bókmenntum við virtan háskóla í London. Þar með hafi Roman áttað sig á að Chelsea væri enn stærri en hann hefði haldið.