Það hefur lengi verið sagt, og staðfest í fjölda rannsókna, að fólk ráði sig til vinnustaða en hætti vegna yfirmanns. Vegna upplifunar starfsmanns á að yfirmaðurinn sé ekki góður yfirmaður. Sem gæti birst í óskýrleika í stjórnun, miður góðum samskiptum, skorti á hvatningu og stuðningi eða öðru álíka.

Nú þegar vinna í teymum er að verða algengari þá fara teymið, vinnuaðstaðan, vinnustaðarmenningin o.fl. einnig að hafa mikil áhrif í þessu samhengi. Og nú í seinni tíð einnig hversu mikill sveigjanleiki og sjálfræði er í boði á vinnustaðnum.

Fjölgun áhrifaþátta breytir því þó ekki að fólk vill enn hafa góðan yfirmann. Vinnustaðir þurfa því góða stjórnendur, sem geta stjórnað bæði rekstri og mannauði, út frá aðstæðum og tíðaranda hverju sinni. Stjórnendur sem taka tíma í að þekkja starfsfólk og nýta styrkleika þess sem best. Leiðbeina og hvetja til hámörkunar frammistöðu. Stuðla að heilbrigðri vinnustaðarmenningu og styðja starfsfólk sem einstaklinga.

Góð upplifun

Nýjar rannsóknir sýna að til að laða að og halda í starfsfólk í dag skiptir mestu máli að skapa góða almenna upplifun fyrir starfsfólk. Líkt og gert er fyrir viðskiptavini.

Kortleggja ætti alla snertifleti starfsfólks við vinnustaðinn og huga að góðri upplifun á þeim öllum, hvort sem þeir eru rafrænir, áþreifanlegir eða byggi á mannlegum samskiptum. Með góðri upplifun verður til vinnustaður sem fólki langar til að vera á, leggja sig fram fyrir og kostnaður vegna lágrar helgunar og starfsmannaveltu minnkar.

Þörf á breyttum ráðningum

Ráðningarferlar og -aðferðir geta líka haft áhrif á upplifun og starfsmannaveltu. Ráðningar ættu ekki að ganga helst  út á að para saman prófgráður og misvel ígrundaðar hæfnikröfur starfa. Frekar að para saman hæfni einstaklinga og persónulegar væntingar til verkefna, teymis, stjórnanda og vinnustaðarmenningar.

Nýleg rannsókn Deloitte sýnir að það að para hæfni fólks við verkefni, í stað starfa, að þá batni afkoma, starfsmannavelta minnkar, aðlögunarhæfni, sveigjanleiki og nýsköpun eykst, sem og helgun og velsæld fólks.

Þörf á endurhönnun starfa og starfsumhverfis

Hugarfar fólks er það sem helst heldur aftur af okkur þegar kemur að breytingum og þróun og ekki allir tilbúnir til að skoða hvort störf séu ennþá besta leiðin til að halda utan um og stýra vinnu og vinnuafli. Líklega er betra að brjóta störf upp í verkefni og raða þeim saman upp á nýtt, þannig að vinnuaflið njóti betur sinna verkefna og skili meiri frammistöðu og framleiðni í þeim. Þetta gæti líka nýst vel í tengslum við auknar kröfur um sveigjanleika og svo við styttingu vinnuvikunnar.

Breyttar kröfur til stjórnenda

Margir stjórnendur eru að finna fyrir ákveðnu óöryggi í hlutverki sínu í dag. Þeir þættir og hegðun sem stjórnendur hafa hingað til verið best metnir á, t.d. langur vinnutími, að vera faglega sterkastir í teymi, finna sjálfir lausnirnar, eru ekki þeir þættir sem best eru metnir í dag, eða taldir nauðsynlegastir fyrir leiðtoga framtíðarinnar.

Mörgum vantar stuðning til að endurnýja hæfnisett sitt, endurskoða hugarfar sitt og endurmeta hvort þeir séu að sýna þá hegðun sem kallað er eftir frá stjórnendum í dag.

Stjórnendur skipta enn miklu máli

Þó þeim þáttum hafi fjölgað sem hafa áhrif á helgun og starfsmannaveltu þá skipta stjórnendur enn mjög miklu máli í því samhengi, eins og mörgu öðru.

Stjórnun hefur áhrif á afkomu og velsæld. Stjórnendur ættu því að nýta verkfærið stjórnun á sem árangursríkastan hátt. Skapa og miðla skýrri sýn. Varða áhugaverða leið með sínu fólki. Leiðbeina, hvetja og styðja. Tengjast fólkinu sína og finna leiðir til að nýta styrkleika þess sem best. Hvetja það til að þróast í starfi og eflast sem manneskjur. Stuðla að heilbrigðri vinnustaðarmenningu.

Stjórnun sem þróast og er nýtt vel til árangurs fyrir vinnustaði, sem og árangurs og ánægju fyrir starfsfólk getur haft mikil áhrif á árangur vinnustaða, á fjölbreyttum mælikvörðum árangurs.

Höfundur er stjórnunarráðgjafi, stjórnendaþjálfi og annar stofnenda Opus Futura.