Óttarr Proppé er formaður Bjartrar framtíðar, sem eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítrekað um ákvað að slíta stjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn og Viðreisn um miðja nótt, tveimur dögum eftir að nýtt fjárlagafrumvarp var lagt fram.

Ástæðan var sögð trúnaðarbrestur en eins og Viðskiptablaðið hefur greint fr á hafði honum verið verið sagt frá undirskrift föður Bjarna að meðmælabréfi fyrir dæmdan mann á mánudag.

Óttarr segir framgöngu flokksins ekki einkennast af heigulshætti að því er Vísir greinir frá. „Nei, þvert á móti. Ég tel einmitt að við höfum þorað þegar þurfti,“ segir Óttarr, en flokkur hans hefur verið að mælast langt undir kjörfylgi hans í skoðanakönnunum undanfarið.

Segist hafa farið erfiðu leiðina

„Við ákváðum að taka ekki auðveldu leiðina og sætta okkur við svona vinnubrögð sem okkur þykja óásættanleg. Þetta er prinsippmál fyrir okkur – prinsipp í mannréttindum eru mikilvægari en bara einhverjir stólar eða völd.“

Óttarr segir þó að stjórnarsamstarfið hafi gengið vel að mörgu leiti og þeim hafi tekist að draga Sjálfstæðisflokkinn inn á miðjuna í efnahagsmálum meðal annars, en hann gagnrýnir menninguna í flokknum sem ekki sé í takt við tímann. „Það eru margir góðir einstaklingar í Sjálfstæðisflokknum en kúltúrinn er eitraður,“ sagði Óttarr.

„Það er einhver strúktur í þessum flokki sem byggir á því að leiðtoginn ræður öllu og allt stjórnast af hans hagsmunum, svo dansa allir eftir því. Það er ekki andi nútímans að það sé bara „pabbi“ sem ráði öllu.“