Demókrataflokkurinn náði meirihluta í fulltrúadeild Bandaríkjaþings í kosningunum í gær. Repúblíkanaflokkurinn jók hinsvegar við meirihluta sinn í öldungadeildinni. Financial Times greinir frá .

Báðir flokkar hafa lýst yfir sigri, en ljóst er að töluverð átök eru í vændum á seinni helmingi kjörtímabils Donalds Trump forseta, sem nýtur ekki lengur þingmeirihluta flokks síns í báðum deildum.

Meðal þeirra verkfæra sem þingmeirihluti í fulltrúadeildinni færir Demókrötum eru þingrannsóknir, en margir þingmenn flokksins eru ólmir að láta þingið rannsaka allt frá skattskýrslum Trump til tengsla hans við valdhafa í Rússlandi.

Atburðarásin minnir óneitanlega á forsetatíð Obama, en flokkur hans hafði þingmeirihluta í báðum deildum í upphafi fyrra kjörtímabils hans, en á miðju tímabilinu missti hann meirihlutann og náði honum aldrei aftur, sem gerði honum og flokknum erfitt fyrir að koma málum sínum í gegn.