Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir að óbreytt hugsun þegar kemur að launahækkunum gangi ekki til lengri tíma.

Nauðsynlegt sé að losna úr vítahring þar sem víxlverkun launa og verðlagshækkana hefur í för með sér verðbólgu sem skilar háu vaxtastigi. Nýir kjarasamningar hafi í för með sér nýja stefnu.

„Þetta verður ekki sársaukalaust og með þessum samningum þá erum við í rauninni að semja um kaupmáttarrýrnun á fyrstu stigum samninganna, núna er verðbólgan 6,8% en teikn eru á lofti um að hún fari lækkandi,“ segir Sigríður Margrét. „Það kostar átök að komast út úr þessum vítahring en við þurfum að færa fórnir til að uppskera, það er bara eins og með allt annað í lífinu.“

Ekki megi gleyma ávinningnum sem felist í fyrirsjáanlegu og stöðugu ástandi, bæði fyrir fyrirtækin í landinu og heimilin. Staðan í efnahagsmálum undanfarin ár hafi ef til vill varpað skýrara ljósi á það hversu ósjálfbært óbreytt ástand er og skapað vettvang fyrir breytingar.

„Við erum í einstöku færi til að innleiða ný vinnubrögð sem byggja á efnahagslegum forsendum og ná tökum á þessum mikilvægu þáttum sem hafa áhrif á stöðugleikann. Staðreyndin er auðvitað sú að við búum í landi þar sem eru einhver mestu og bestu lífskjör í heiminum, við vitum að sextíu prósent af öllum verðmætum sem við sköpum renna til launafólks. Við vitum það líka að ef þú ert að reka fyrirtæki þá eru laun og launatengd gjöld langstærsti einstaki kostnaðarliðurinn að aðföngum undanskildum,“ segir Sigríður Margrét.

Með nýjum ramma sem samið hefur verið um sé verið að skipta verðmætaaukningunni sem verður til með sanngjörnum hætti en til þess að markmiðin náist þurfi allir armar hagstjórnarinnar að vinna saman.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út á miðvikudag. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.