Alvotech hefur gengið að tilboði frá hópi fagfjárfesta og viðurkenndra gagnaðila um sölu á 10,1 milljón almennra hlutabréfa í félaginu að verðmæti um 22,8 milljarðar króna á genginu 2.250 krónur á hlut eða sem samsvarar 16,41 dali á hlut.

Í kauphallartilkynningu Alvotech kemur fram að endanlegt bindandi tilboð hafi borist félaginu í morgun og hefur lyfjalíftæknifyrirtækið ákveðið að ganga að því.

„Alvotech hyggst nýta féð í almennan rekstur, til að styrkja framleiðslugetu og við að koma væntanlegum líftæknilyfjahliðstæðum á markað.“

Ekki er um að ræða hlutafjáraukningu heldur munu tilboðsgjafar fá afhent áður útgefin hlutabréf sem eru í eigu Alvotech í gegnum dótturfélagið Alvotech Manco ehf. Viðskiptin verða í gegnum Kauphöllina.

Alvotech tilkynnti á aðfaranótt laugardags að Mat­væla- og lyfja­eftir­lit Banda­ríkjanna (FDA) hefði veitt fé­laginu leyfi til sölu og markaðs­setningar í Banda­ríkjunum á Simlandi (AVT02), sem líf­tækni­lyfja­hlið­stæðu við Humira.