Hluta­bréfa­verð Icelandair hefur lækkað um rúm 4% í morgun og stendur gengið í 1,09 krónum þegar þetta er skrifað.

Gengi flug­fé­lagsins fór síðast undir eina krónu um haustið 2020 þegar Co­vid-far­aldurinn lamaði flug­sam­göngur.

Hluta­bréfa­verð Icelandair var rúmar tvær krónur síðasta sumar en í septem­ber síðast­liðnum færði fé­lagið af­komu­spá sína niður fyrir árið, sér í lagi vegna krefjandi að­stæðna í frakt­starf­semi fé­lagsins sem og hækkandi elds­neytis­verði.

Um haustið tóku síðan við jarð­hræringar á Reykja­nes­skaga sem og verk­föll flug­um­ferða­stjóra.

Gengið tók ör­lítið við sér í janúar en sam­kvæmt kaup­hallar­til­kynningu í byrjun febrúar lækkaði sæta­nýting flug­fé­lagsins tals­vert milli ára á fyrsta mánuði ársins.

Í til­kynningu fé­lagsins sagði að þrátt fyrir að jarð­hræringar og eld­gos á Reykja­nesi í nóvember og desember hafi ekki raskað flug­á­ætlun Icelandair, þá hafi al­þjóð­leg um­fjöllun um at­burðina haft veru­leg á­hrif á þróun bókana á fjórða árs­fjórðungi sem sé mikil­vægt sölu­tíma­bil flug­ferða í janúar.

Icelandair birti árs­upp­gjör í byrjun febrúar en fé­lagið skilaði hagnaði í fyrra í fyrsta sinn í sex ár. Icelandair hagnaðist um 1,5 milljarða króna eftir skatta á árinu 2023, saman­borið við 800 milljóna króna tap árið áður.

Hins vegar var af­koma fjórða árs­fjórðungs undir væntingum.

Gengi flug­fé­lagsins féll um 7% í fyrstu við­skiptum eftir upp­gjörið en þrátt fyrir á­gætis lausa­fjár­stöðu en fé­lagið tölu­vert skuld­sett.

Vaxta­berandi skuldir og leigu­skuld­bindingar fé­lagsins sam­kvæmt árs­reikningi námu alls 638,6 milljónum Banda­ríkja­dala sem sam­svarar 87,4 milljörðum króna á gengi dagsins. Skuldir flug­fé­lagsins jukust um 40,7 milljónir dala í fyrra sem var þó að mestu vegna flug­véla­tengdra fjár­festinga.

Eigið fé nam 288,3 milljónum dala í lok árs og var eiginfjárhlutfall Icelandair 19%.