Tæknirisinn Google mun verða bakjarl nýs gervihnattaverkefnis en gervihnetti verður skotið út í geim í næsta mánuði sem mun safna gögnum um metanmagn á heimsvísu. Gervihnötturinn mun fljúga um sporbaug jarðar 15 sinnum á dag í um 480 kílómetra fjarlægð frá yfirborði jarðar.

Metan er skæð gróðurhúsalofttegund og þegar því er sleppt í andrúmsloftið hefur það 21 sinnum meiri gróðurhúsaáhrif en koltvísýringur.

Mikið af metani er afleiðing landbúnaðarframleiðslu og úrgangsförgunar en verkefni Google mun einblína á metanlosun í olíu- og gasverksmiðjum. Verkefnið er unnið í samstarfi við Environmental Defense Fund og verða gögnin notuð til að kortleggja metanleka á olíu- og gasinnviðum á heimsvísu.

Gögnin verða hins vegar ekki send beint til þeirra fyrirtækja þar sem metanlekinn á við heldur verða upplýsingarnar einnig aðgengilegar stjórnvöldum og eftirlitsaðilum. Upplýsingarnar munu enda á Earth Engine-síðu Google á nokkurra vikna fresti.

NASA segir að metanmagnið í andrúmsloftinu hafi meira en tvöfaldast á síðustu 200 árum og að 60% af því sé komið frá mannavöldum. Stærsti þátturinn er talinn aukinn fjöldi nautgripa en þegar jórturdýr melta myndast töluvert af metani.