Hugbúnaðarfyrirtækið Víkonnekt veitir nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum þjónustu við að hanna hugbúnaðarlausnir og aðstoð við að ráða til sín sérhæft starfsfólk til að hanna og þróa hugbúnað. Í raun má skipta þjónustunni sem Víkonnekt býður upp á í þrennt, þó að meginstefið sé að auðvelda nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum að hanna hugbúnaðarlausnir.

Í fyrsta lagi getur Víkonnekt þróað hugbúnaðarlausnir fyrir viðskiptavini sína. „Segjum sem svo að fyrirtæki langi að þróa hugbúnaðarlausn en hafi ekki tækniþekkinguna til þess. Þá geta þau ráðið okkur í það verkefni. Við byrjum á því að gera kostnaðaráætlun, hönnum hugbúnaðinn og ef fyrirtækin hafa áhuga á því að vera með viðhaldsplan þá er það líka í boði.“

Í öðru lagi aðstoðar Víkonnekt viðskiptavini við að finna forritara eða hugbúnaðarverkfræðinga til lengri eða skemmri tíma. „Okkar markmið er að lækka kostnað viðskiptavinanna og spara tíma. Það er mikill kostnaður falinn í því að leita að forriturum í dag. Stundum reynist það þrautin þyngri að finna forritara á Íslandi og þá leitum við erlendis. Við viljum að viðskiptavinir okkar geti treyst því að við finnum réttan einstakling fyrir þeirra verkefni,“ segir Safa. Hún nefnir einnig að Víkonnekt bjóði upp á lausnir fyrir fyrirtæki sem vanti einungis að ráða forritara eða hugbúnaðarverkfræðinga í ákveðinn tíma og vilji síður ráða starfsmanninn beint. „Þau geta þá komið til okkar og fengið forritara frá okkur til að vinna í fullu starfi í þann tíma sem þau þurfa.“

Í þriðja lagi býður Víkonnekt viðskiptavinum sínum aðstoð við að ráða forritara. Nýsköpunar- og sprotafyrirtæki hafi ekki alltaf réttu upplýsingarnar varðandi hvað þau vanti í forritara til að geta þróað hugbúnaðarlausn – Víkonnekt veitir þeim þessar upplýsingar.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.