Auðvitað þarf bara að draga Sjálfstæðisflokkinn lengra til hægri. Ég held að þar myndi fylgi hans vaxa frekar heldur en að sækja alltaf inn á þessa leiðinlegu miðju,“ segir Heiðar Guðjónsson fjárfestir og sjálfstæðismaður í nýjasta hlaðvarpsþætti Chat after Dark.

Heiðar lýsir áhyggjum yfir þróun ríkisfjármála og benti m.a. á að frá árinu 1990 hafi nær aldrei verið dregið úr ríkisútgjöldum.

„Samt verið fullt tilefni til þess, vegna þess að hagkerfið hefur oft ofhitnað og ýmislegt verið í gangi sem hefur alls ekki kallað á aukin inngrip hins opinbera. Einhvern veginn bætist alltaf í.

Þarna er Sjálfstæðisflokkurinn meira og minna búinn að vera við völd síðan 1990. Það er ekkert hægt að segja að þetta sé einhverjum öðrum um að kenna. Þetta er bara flokkurinn sem segir báknið burt en gerir síðan eitthvað allt annað.“

Heiðar telur að Sjálfstæðisflokkurinn hafi gefið of mikið eftir í núverandi ríkisstjórnarsamtarfi. Spurður hvort betra sé fyrir flokkinn að vera í ríkisstjórn og hafa áhrif eða berjast harðar fyrir sínum málefnum, jafnvel þó það myndi leiða til þess að flokkurinn yrði í stjórnarandstöðu, svaraði hann:

„Þetta er eins og með Samtök atvinnulífsins. Á alltaf að gefa eftir þegar á hólminn er komið og sætta sig við eitthvað? Aðili sem kemur inn í samningaviðræður og er svoleiðis fyrirsjáanlegur, hann tapar alltaf. Það þarf einhvern tímann að láta steyta á einhverju.“

Pilsfaldakapítalismi og baneitraður kokteill

Þáttastjórnendur spurðu Heiðar síðar hvort hægri menn eigi að vera hræddir við persónufylgi Kristrúnar Frostadóttur, formanns Samfylkingarinnar.

„Nei nei. Það er bara frábært að hún sé í framboði. Það sem mér kemur mest á óvart er hvað hún er að segja miðað við hennar menntun og starfsreynslu,“ svaraði hann.

Kristrún tali fyrir óábyrgri aukningu ríkisútgjalda að hans mati. Auk þess hafi hún kallað eftir aðgerðum á borð við leigubremsu og hvalrekaskatt á útgerðarfélög en hún ber fyrir sig að útgerðin hafi skilað metarðsemi í fyrra.

„Mun þessi sama manneskja, ef það gengur rosalega illa, ætla þá að gefa þeim sérstaklega peninga? Ef ekki, þá er þetta enginn hvalrekaskattur. Þá er þetta bara einhver viðbótarskattur. Þetta verður að ganga í báðar áttir,“ segir Heiðar.

„Ef þú ert kominn með svona pilsfaldakapítalisma þar sem í raun og veru stóru fyrirtækin eiga alltaf heimtingu á því að sækja eitthvað til ríkisins og ríkið á heimtingu að sækja til þeirra, þá ertu kominn með einhvern mjög vondan kokteil. Vegna þess að blanda saman viðskiptum og stjórnmálum, það er alveg baneitraður kokteill.“

Hægri flokkur hefði aldrei verið mótfallinn Mílu-sölunni

Spurður út í álit sitt á þeim flokkum sem eru næstir Sjálfstæðisflokknum, svaraði Heiðar að Viðreisn og Miðflokkurinn séu því miður einhvers konar miðjuflokkar. Hann furðaði sig á afstöðu Viðreisnar til alþjóðaviðskipta.

„Viðreisn hafði sig mjög í frammi á móti því að franskt risastórt eignastýringafyrirtæki væri að kaupa Mílu af Símanum, sem einhver hægri flokkur myndi aldrei setja sig upp á móti.“

Heiðar ræddi stuttlega um sóttvarnaaðgerðir stjórnvalda í Covid-faraldrinum sem hann telur að hafi verið „algjörlega út úr kortinu“.

„Ég gat ekki séð eins og í heimsfaraldrinum að Viðreisn eða einhver innan Viðreisnar væri með uppsteyt út af þessum gríðarlegu umfangsmiklu sóttvarnaraðgerðum og broti á, í raun og veru, réttindum einstaklinga. Það var þó fólk innan Sjálfstæðisflokksins sem hreyfði mótbárum við þessu.“