Fjárhagsstaða Þjóðarsjóðs Sáda hefur versnað verulega á undanförnum árum, en stjórnendur hans virðast hafa spennt bogann full hátt þegar kemur að fjár­festingum.

Í fyrra lagði sjóðurinn hinni svokölluðu Línu­borg til 48 milljarða dala, fjár­festi 100 milljörðum í ör­flögu­tækni og stofnaði nýtt flug­fé­lag, Ri­ya­dh Air, svo dæmi séu tekin.

Sam­kvæmt The Wall Street Journal hafa öll þessi verkefni bitnað á lausafjárstöðu sjóðsins, en hand­bært fé í lok árs 2023 var ekki nema 15 milljarðar Banda­ríkja­dala sem er það lægsta frá því að sjóðurinn byrjaði að greina opin­ber­lega frá fjár­hags­stöðu sinni.

Þjóðar­sjóðurinn hefur þurft í kjöl­farið að taka lán til að geta fjár­magnað öll fjár­festinga­verk­efnin, eitt­hvað sem sjóðurinn hefur bæði forðast og aldrei þurft að gera áður.

Sam­kvæmt heimildar­mönnum WSJ Þá er einnig á döfinni risa hluta­fjár­út­boð í krúnu­djásni konungs­fjöl­skyldunnar Saudi Aramco til þess að sækja meira fjár­magn í sjóðinn.

Þjóðar­sjóðurinn hefur verið notaður til að fjár­magna draum­sýn Krón­prinsins Mohammed bin Sal­man sem heitir einu nafni Vision 2030 en verk­efnið snýr að því að auka fjöl­breytni í efna­hag landsins.

Þjóðar­sjóðurinn hefur einnig komið að fjár­mögnun ýmissa í­þrótta­verk­efni í landinu eins og sam­einingu LIV Golf og PGA- mótaraðarinnar sam­hliða því að borga himin­hátt kaup knatt­spyrnu­manna í sá­diarabísku úr­vals­deildinni.

Sjóðurinn greiddi einnig 35 milljarða dala fyrir nýjar flugvélar frá Boeing og þá er á döfinni að fjár­festa í raf­í­þróttum fyrir 38 milljarða dala sem og byrja að fram­leiða raf­bíla.

Ekkert jafnast þó á við Línu­borgina Neom sem er ætlað að hýsa níu milljón íbúa en á­ætlað er að fast­eigna­verk­efnið muni kosta um 500 milljarða Banda­ríkja­dala þegar upp er staðið.

Sam­kvæmt sér­fræðingum sem The Wall Street Journal þarf sádíarabíska ríkið að leggja sjóðnum til hundruð milljóna dala á næstunni. Á­ætlað er að halla­rekstur ríkisins verði um 21 milljarður dala í ár sem er um 2% af lands­fram­leiðslu.

Sádí-arabíska ríkið greip til að­gerða í byrjun árs með tveimur veglegum skulda­bréfa­út­boðum en ríkið kom fjár­festum veru­lega á ó­vart þegar það seldi bréf fyrir 12 milljarða dala í janúar nokkrum dögum eftir að hafa gefið það út að áætluð lánsfjárþörf fyrir árið í heild væri 9 milljarðar.

Nokkrum vikum seinna sótti þjóðar­sjóðurinn svo einnig 5 milljarða dala með sama hætti.