Íslenska loftslagsfyrirtækið Transition Labs hefur gert samkomulag við Carbon to Sea Initiative, alþjóðlegt rannsóknar- og þróunarverkefni um að skoða kosti þess að setja upp rannsóknarstöð á Íslandi. Verkefnið tengist nýrri aðferð við föngun og bindingu kolefnis úr andrúmsloftinu.

Meðal bakhjarla verkefnisins er sjóður stofnaður af fyrrverandi tæknistjóra Facebook en verkefnið hefur þegar fengið um 7 milljarða króna í styrki.

Aðferðin sem um ræðir snýst um að magna upp náttúrulegt veðrunarferli sem á sér stað þegar basískt berg berst með ferskvatni í hafið og setur af stað efnahvörf sem fanga koltvísýring úr andrúmsloftinu. Í tilkynningu segir að aðferðin muni koma til með að umbreyta koltvísýringnum og geyma á öruggan hátt í efnasamsetningu hafsins.

„Við teljum að það séu mikil tækifæri í því fyrir Ísland að taka þátt í þessum rannsóknum, bæði vegna þekkingarinnar sem mun myndast á íslenskum strandsjávarkerfum við rannsóknirnar en einnig vegna tækifærisins sem felst í því að vera í framlínu tækniþróunar á sviði loftslagslausna,“ segir Jóhann Þorvaldur Bergþórsson, verkefnastjóri hjá Transition Labs.

Hópurinn við rannsóknir á Kanaríeyjum.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Frá 1970 hafa höfin dregið í sig meira en 90% af þeim varma sem hefur bæst við vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa. Um það bil 25-30% af þeim koltvísýringi hefur borist út í andrúmsloftið. Súrnun sjávar er einnig hraðari í sjónum umhverfis Ísland en á öðrum svæðum í Atlantshafinu.

„Til að vinna gegn hlýnun jarðar þá þurfum við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auk þess fjarlægja gífurlegt magn af kolefni úr andrúmsloftinu. Sú aðferð sem nefnist OAE lofar mjög góðu en ýmsum spurningum er enn ósvarað. Það er frábært að taka þátt í því að skapa forsendur þess að hægt sé að rannsaka aðferðina í þaula svo hægt sé að taka upplýsta ákvörðun um hvort rétt sé að beita henni á stórum skala,“ segir Davíð Helgason, stofnandi Transition Labs.