Margir eru enn að klóra sér í kollinum vegna fréttaskýringaþáttarins Kveiks sem sýndur var í Ríkisútvarpinu á þriðjudag.

Í þættinum gerði Kristín Sigurðardóttir fréttakona tilraun til að varpa fram þeirri mynd að hér á landi byggju tvær þjóðir sem deildu ekki sömu kjörum. Annars vegar eigendur fyrirtækja sem gera upp í evrum og hins vegar hinn þungbúni nafnlausi skari sem situr uppi með sínar krónur.

Nú fær umræða um reikningsskil fyrirtækja blóð fæstra til að renna hraðar. En í meðförum Kveiks mætti halda að um meiri háttar samsæri væri að ræða gagnvart þjóðinni. Miðað við þann ham sem þáttargerðarmenn voru í er undrunarefni hvernig þeir gátu staðist þá freistingu að skreyta þáttinn með myndefni af köllum með pípuhatta og í sjakketi akandi um borg og bæi þessa lands með vasana troðfulla af evrum.

***

Framsetningin í þættinum minnti á málflutning Viðreisnar en þingmenn og fylgihnettir flokksins hafa einnig talað á þá leið að fyrirtækin í landinu hafi tekið upp evru og skilið mörlandann eftir í torfkofunum eða eitthvað álíka. Eftir því var tekið að meðan á Kveiksþættinum stóð voru þingmenn Viðreisnar og starfsmenn flokksins farnir að hafa hátt á samfélagsmiðlum um þá miklu snilld sem fælist í efnistökunum.

Slíkur málflutningur er fráleitur. Þegar tekjur og gjöld fyrirtækja eru að stórum hluta í erlendri mynt er fullkomlega eðlilegt að reikningsskilum sé þannig háttað.
Það kann að einfalda rekstur útflutningsfyrirtækja sem selja vörur sínar á alþjóðamörkuðum að gera upp í annarri mynt.

Það jafnar út sumar sveiflur og kann auðvitað að skapa önnur vandamál á móti í reikningshaldinu. En þetta breytir engu fyrir reksturinn. Starfsmenn félagsins ganga ekki um með bólgin veski yfirfull af evruseðlum þó svo að breytt sé um uppgjörsmynt. Hinn efnahagslegi veruleiki er eftir sem áður hinn sami. Rétt eins og Reykjanesbrautin er jafn löng hvort sem hún er mæld í metrum eða fetum. Ströndin í Nauthólsvík myndi ekki fyllast í janúar þegar hitastigið sýndi 32 gráður á Fahrenheit-kvarðanum.

Til að lesa meira

Hægt að er kaupa áskrift að Viðskiptablaðinu, Fiskifréttum og Frjálsri verslun hér.

Verð frá 4.495 kr. á mánuði