Ljóst er að auknar sveiflur í veðurfari, sem rekja má til loftslagsbreytinga auk annarra loftslags- og sjálfbærnitengdra þátta, hafa í dag áhrif á afkomu og rekstrarumhverfi fyrirtækja.

Þessi þróun er líkleg til að færast í aukana á næstu árum. Sameinuðu þjóðirnar hafa t.a.m. upplýst að nýliðinn júlí var sá heitasti frá upphafi mælinga og er gert ráð fyrir sambærilegri þróun á næstu árum með tilheyrandi hitabylgjum, skógareldum, þurrkum og flóðum víðsvegar um heiminn.

Til að takast á við þessar áskoranir og ná árangri í loftslagsmálum er nauðsynlegt að umbreyta hagkerfum heimsins og gera þau sjálfbærari þannig að þau styðji við markmið Parísarsáttmálans um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Lykilþáttur í slíkri umbreytingu er að virkja atvinnulífið í að taka upp sjálfbærari viðskiptahætti og er nýju alþjóðlegu regluverki tengt loftslags- og sjálfbærnimálum ætlað að styðja við þá vegferð.

Umfangsmikið regluverk

Unnið hefur verið að slíku regluverki á vettvangi ESB, Alþjóða reikningsskilaráðsins (IASB), í Bandaríkjunum og víðar. Regluverkið er umfangsmikið og tekur á ýmsum þáttum tengdum sjálfbærniupplýsingagjöf fyrirtækja (sjá frekar hér Nýjar sjálfbærnireglugerðir | Deloitte Ísland, Flokkunarreglugerð ESB áskorun íslensks atvinnulífs (vb.is)) og hafa sumar reglugerðir nú þegar tekið gildi hér á landi á meðan búist er við að fleiri taki gildi á næstu árum. Einnig eru í farvatninu ýmis önnur regluverk er tengjast sjálfbærni og eru þeim gerð ágæt skil í Vegvísi Festu um lög og reglur ESB um sjálfbærni.

Ljóst er að innleiðing á nýju sjálfbærniregluverki og umbreytingin í kolefnishlutlaust (e. net-zero) framtíðarhagkerfi verður krefjandi fyrir íslenskt atvinnulíf en líkt og kom fram í sjálfbærnikönnun Deloitte og Festu frá því fyrr á árinu, þá gera flestir íslenskir stjórnendur sér grein fyrir mikilvægi þessa málaflokks.

Í könnuninni töldu t.a.m. 61% íslenskra stjórnenda að loftslagsbreytingar muni hafa mjög mikil áhrif á stefnu og rekstur síns fyrirtækis á næstu þremur árum og 73% sögðu að fyrirtækið þeirra hefði nú þegar orðið fyrir áhrifum af loftslagsbreytingum. Einnig var áhugavert í könnuninni að íslenskir stjórnendur höfðu minni áhyggjur af regluverki tengt sjálfbærni og loftslagsmálum en norrænir og alþjóðlegir kollegar þeirra.

Með ofangreint í huga er einmitt gagnlegt að horfa til annarra áhrifaþátta en regluverk sem munu hafa áhrif á viðskiptaumhverfið, bæði útfrá áskorunum og tækifærum, og má þar nefna:

  • Samkeppnisforskot Neytendur eru meðvitaðri um umhverfismál í dag en áður og velja í auknum mæli „grænar“ vörur / þjónustu (s.s. vistvæn farartæki, umhverfisvottaðar vörur og umbúðir, vistvænar byggingar o.fl.). Til viðbótar má nefna mikilvægi félagslegra þátta (s.s. jafnrétti, mannréttindi og forvarnir gegn kynferðislegri áreitni) og stjórnarhátta (s.s. ábyrgir stjórnarhættir, netöryggi og upplýsingagjöf). Varasamt verður fyrir fyrirtæki að freistast til að setja fram órökstuddar yfirlýsingar um umhverfislegan ávinning, oft nefnt „grænþvottur“ en fjölmörg dæmi má finna erlendis frá þar sem fyrirtæki hafa verið lögsótt fyrir slíkt og/eða viðskiptavinir hafa snúið baki við þeim. ESB hefur til umsagnar ný lög sem eiga að koma í veg fyrir að fyrirtæki getið stundað grænþvott. En með því að leggja áherslu á að innleiða loftslags- og sjálfbærniþætti inn í viðskiptalíkan fyrirtækja, geta þau skapað sér samkeppnisforskot, forðast grænþvott, aukið tekjumyndun og sótt á nýja markaði.

  • Virðiskeðja Sjálfbærniáhrif á birgja eru víðtæk í dag þar sem áhrif eins fyrirtækis geta haft veruleg áhrif á önnur félög og öfugt, t.d. útfrá kolefnisspori. Því munu birgjar í auknum mæli þurfa að gera grein fyrir stefnu sinni og aðgerðum í sjálfbærnimálum gagnvart sínum viðskiptavinum út frá viðmiðum um umhverfi, félagslega þætti og stjórnarhætti (UFS). Ljóst er að þau fyrirtæki sem standa sig vel í UFS-birgjamati eiga aukna möguleika á að efla viðskiptasambönd, ná í ný viðskipti eða vinna opinber útboð á kostnað þeirra sem vanrækja þessa málaflokka. Erlendis færist það t.a.m. í vöxt að fyrirtæki krefji stóra birgja um að þeir taki upp vísindatengd loftslagsmarkmið (e. Science Based Targets Initiative) en í dag hafa nokkur íslensk fyrirtæki sett sér slík markmið, þ.m.t. Deloitte á Íslandi sem er hluti af alþjóðlegu markmiði Deloitte, auk þess sem fjölmörg önnur fyrirtæki hyggjast bætast í hópinn á næstunni.

  • Fjármögnun Bankar, aðrir fjármögnunaraðilar sem og fjárfestar eru í dag undir miklum þrýstingi að láta til sín taka í loftslags- og sjálfbærnimálum. Þetta á bæði við UFS-áhættustýringu sem og fjármögnun á umbreytingunni í sjálfbært og kolefnishlutlaust framtíðarhagkerfi. Fyrirtæki sem hafa markað sér metnaðarfull markmið og sett sér skýra stefnu og markmið í átt að sjálfbæru og kolefnishlutlausu viðskiptalíkani munu njóta ábatans í formi hagstæðrar fjármögnunar. Ennfremur mun „græn“ starfsemi líkt og Carbfix og náttúrutengd verkefni útfrá vottaðri skógrækt og endurheimt votlendis, endurvinnsla og hringrásarhagkerfi og endurnýjanleg orka verða eftirsóttir fjárfestingarkostir en öll þessi starfsemi fellur undir Flokkunarreglugerð ESB. Þá er líklegt að fjármögnunarkostnaður hækki og aðgengi að fjármagni takmarkast hjá þeim fyrirtækjum sem vanrækja að uppfylla kröfur um UFS-frammistöðu og aðlaga ekki viðskiptalíkön sín að kolefnishlutleysi.

Færa má rök fyrir því að íslensk fyrirtæki, sem hafa tekið ófjárhagslega upplýsingagjöf og loftslags- og sjálfbærnimál föstum tökum, eigi talsverða möguleika á að nýta sér breytt landslag í þessum málum til að styrkja rekstrargrundvöll og afkomu sína. Að sama skapi er líklegt að fyrirtæki sem hafa ekki sinnt þessum málaflokki muni verða eftirbátur hinna.

Nýta meðbyrinn

Íslenskt atvinnulíf hefur einstakt tækifæri á að nýta sér meðbyrinn sem fylgir ofangreindum áherslum í loftslags- og sjálfbærnimálum og því er mikilvægt að láta ekki mögulegar áskoranir sem fylgja innleiðingu á nýjum reglugerðum draga úr sér þróttinn. Við búum á einstakri eyju með gnótt af náttúrlegum auðlindum á láði og legi, höfum byggt upp velferðarsamfélag og erum leiðandi í jafnréttismálum á heimsvísu.

Núna er tíminn fyrir Ísland til að stökkva á sjálfbærnivagninn og nýta ofangreint til að byggja upp sjálfbærara samfélag og atvinnulíf og um leið leggja okkar lóð á vogaskálarnir í baráttunni við loftslagsbreytingar.

Höfundur er meðeigandi og yfirmaður sjálfbærniráðgjafar Deloitte á Íslandi og hluti af stjórnendateymi Deloitte á Norðurlöndum.