Ísland hefur sett sér markmið um kolefnishlutleysi fyrir árið 2040 og Evrópusambandið og Bandaríkin hyggjast ná því fyrir árið 2050 en Kína árið 2060. Árið 2020 voru um 60% af öllu áli í heiminum framleidd í Kína og um 75% af framleiðsluaukningu áránna 2010-2020 var þar í landi. Vöxtur í áliðnaði var því miður knúinn áfram af kolum. Kolaknúið álver hefur sjöfalt hærra kolefnisfótspor en álver sem fær raforku úr vatnsaflsvirkjun og munurinn getur verið allt að tífaldur miðað við álver ISAL. Þegar dregið er úr notkun kola til orkuvinnslu í Kína hefur það mikil áhrif á álmarkaðinn í heild sinni sem og aðra hrávörumarkaði.

Þessi þróun hefur jákvæð áhrif á áliðnaðinn á Íslandi. Eftirspurn eftir áli verður áfram sterk og til langs tíma er gert ráð fyrir að eftirspurnin geti vaxið um 4-6% ári til ársins 2040. Notkun áls heldur áfram að aukast en ál er mikilvægt til að draga úr losun bæði í samgöngum og í mannvirkjagerð. Vegna áherslubreytinga styrkist eftirspurn eftir áli með lágu kolefnisspori enn frekar en það setur okkur í góða stöðu. ISAL hefur áratugum saman unnið að því að draga með skipulögðum hætti úr losun gróðurhúsalofttegunda og náð mjög góðum árangri. Frá 1990 hefur heildarlosun ISAL dregist saman um 50% á sama tíma og framleiðslan hefur tvöfaldast. Álframleiðsla með enn minni, jafnvel engri kolefnislosun kann að verða raunhæfur kostur í náinni framtíð.

Rio Tinto, eigandi álversins í Straumsvík, hyggst fjárfesta fyrir 7,5 milljarða dollara á árunum 2022 til 2030 í aðgerðir til að draga úr losun koltvísýrings og strax á næstu tveimur árum nemur upphæðin 1,5 milljörðum dollara. Markmið fyrirtækisins er að minnka losun um 50% fyrir árið 2030 og ná kolefnishlutleysi árið 2050. ISAL hefur, ásamt íslenskum stjórnvöldum, sett markmið á kolefnishlutleysi árið 2040.

Samstarfsyfirlýsing Rio Tinto og Carbfix er einn liður í að ná þessum markmiðum en stefnt er að því að fyrstu boranir fyrir niðurdælingarstöð Carbfix í Straumsvík fari fram strax á næsta ári. Með Carbfix-aðferðinni eru náttúrulegir ferlar nýttir og þeim hraðað til að umbreyta CO2 varanlega í steindir. Það sem til þarf er vatn, rafmagn og svo viðeigandi berggrunnur, en basaltið umhverfis álver ISAL er einkar hentugt fyrir umbreytinguna.

Það er raunhæft að ISAL í Straumsvík verði fyrsta álverið í heiminum til að binda varanlega hluta af kolefnislosun í stein með Carbfixtækninni, sem þegar hefur sannað gildi sitt. Enn eru tæknilegar áskoranir en þeim þarf að mæta til að markmiðin náist. Heimsbyggðin öll stendur frammi fyrir mikilli áskorun við að draga úr losun og ná markmiðum Parísarsamkomulagsins. Í Straumsvík eru tækifæri til að stíga markverð skref í þá átt.

Höfundur er forstjóri Rio Tinto á Íslandi.

Greinin birtist í bókinni 300 stærstu, sem var að koma út. Hægt er að kaupa eintak af bókinni hér .