Góð loðnuvertíð skiptir Íslendinga meira máli en margir gera sér grein fyrir. Ekki aðeins í gjaldeyrissköpun, störfum og tekjum, heldur líka í framlagi til samfélagsins. Þessi fisktegund, sem stór hluti landsmanna hefur aldrei séð, skilaði ríkininu 1.800 milljónum króna í veiðigjald á nýafstaðinni vertíð og útflutningstekjur verða að líkindum um 40 milljarðar króna.

Það er að sjálfsögðu ekki allt. Tekjuskattar starfsmanna, tryggingargjald og önnur gjöld hlaupa á milljörðum. Að ógleymdum sköttum af hagnaði fyrirtækja. Ekki er óvarlegt að áætla að ríkið fái vel yfir tíu milljarða króna vegna þessarar vertíðar. Það segir okkur vonandi eitthvað um mikilvægi verðmætasköpunar.

Það getur verið erfitt að átta sig á stórum tölum. Þess vegna er alltaf ágætt að setja hluti í samhengi. Til einföldunar má athuga hvað fæst, samkvæmt fjárlögum, fyrir þessar 1.800 milljónir sem sjávarútvegurinn greiðir í veiðigjald af þessari einu tegund. Þær duga til dæmis fyrir öllum útgjöldum ríkisins til eftirtalinna málaflokka (milljónir í sviga):

Píeta-samtökin (26), Aflið, samtök gegn kynferðis og heimilisofbeldi (19), Grófin geðverndarfélag (16), Samtökin 78 (15), Neyðarsjóður Sameinuðu þjóðanna (80), UN Women (170), Flóttamannaaðstoð í Palestínu (35), Fræðslumiðstöð Vestfjarða (29), Myndlistarskólinn í Reykjavík (10), Fjölsmiðjan á Akureyri (5), Afrekssjóður ÍSÍ (392), Rannsóknarmiðstöð HÍ í jarðskjálftafræðum (12), Hringborð Norðurslóða (15), Icelandic startups – frumkvöðlar og sprotafyrirtæki (18), Samtök um sögutengda ferðaþjónustu (2), Skógræktarfélag Íslands – Landgræðsluskógar (54), Sinfóníuhljómsveit Suðurlands (10), Íþróttasamband fatlaðra (40), Skáksamband Íslands (38), Reykjavíkurakademían (25), Matvælaáætlun SÞ – Afganistan, Sýrland og Jemen (100), Barnahjálp SÞ (130), Íslenski dansflokkurinn (215), Fjölmiðlanefnd (95), Neytendastofa (131), Náttúrurannsóknarstöðin við Mývatn (49), Gljúfrasteinn (64) og Fjölsmiðjan Suðurnesjum (5).

Svo er náttúrlega hægt að nota þetta sem helming ríkisstyrksins sem erlendir kvikmyndaframleiðendur fá fyrir fjórðu seríu True Detective.