Töluverðrar upplýsingaóreiðu hefur gætt í fjölmiðlum að undanförnu vegna afkomu lífeyrissjóðanna árið 2022. Þó ekki svo mikillar að Fjölmiðlanefnd hafi skipt sér af fréttaflutningnum. Verður það að teljast ótrúlegt þar sem starfsmenn þeirrar tilgangslausu stofnunar eru farnir að skipta sér af því hvernig fólk talar í matarboðum. En það er önnur saga.

En þessi upplýsingaóreiða afhjúpar hversu berskjaldaðir fjölmiðlar eru þegar innan þeirra er ekki grundvallarþekking á þeim málum sem fjallað er um hverju sinni. Málið má rekja til þess að Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, setti inn færslu á Facebook síðu í desember um meint stórfellt tjón af rekstri lífeyrissjóðanna árið 2022.

Ragnar skrifaði:


Von er á miklu tapi á árinu 2023 og ljóst að margir sjóðir muni skerða réttindi.
Eignir lífeyrissjóðanna árið 2022 lækkuðu um 763 milljarða að raunvirði frá árinu 2021 samkvæmt tölum Seðlabankans og Landssamtaka lífeyrissjóða. Mismunur á iðgjöldum í samtryggingardeildir (289,4 milljarðar, séreignasparnaður dreginn frá) og útgreiðslum samtryggingardeilda (207,3 milljarðar) var 82,1 milljarður sem bætist við virðisrýrnun eigna á milli ára. Má því álykta að tap lífeyrissjóðanna á síðasta ári (2022) hafi verið um 845 milljarðar. Góðar stundi
r.“

***

Þetta eru vissulega svakalegar tölur hjá Ragnari og engan skal undra að þær hafi vakið fjölmiðla. Sem og þeir gerðu. Þeir fluttu fréttir af fullyrðingum hans um tap sjóðanna án þess að kanna hvað var að baki þeim.

Full ástæða var til enda Ragnar af einhverjum ástæðum enginn sérstakur aðdáandi íslenska lífeyrissjóðskerfisins. Þannig lét hann þau orð falla í nóvemberlok að lífeyrissjóðirnir væru „taktlausir“ og „siðlausir“ og „plága í íslensku samfélagi“.

Enda þarf ekki að skoða tölurnar lengi sem Ragnar setur fram til að sjá að eitt og annað orkar tvímælis. Þannig telur hann útgreiðslur lífeyris úr samtryggingadeild til tapsins. Það er ansi sérstök nálgun að telja lífeyrisgreiðslur til eigenda sjóðsins til tapreksturs og endurspeglar það vægast sagt sérstaka sýn á hlutverk lífeyrissjóða.

Ríkisútvarpið bar þessa útreikninga Ragnars undir Þóreyju S. Þórðardóttur, framkvæmdastjóra Landssambands lífeyrissjóða, nokkrum dögum eftir að útreikningar Ragnars komust í fréttirnar. Þar benti hún á það sem flestum virðist vera augljóst að fjárfestingatekjur lífeyrissjóðsins hafi verið neikvæðar um 218 milljarða árið 2022. Það ætti svo sem ekki að koma á óvart enda var þetta ár 2022 það versta á innlendum verðbréfamörkuðum frá árinu 2009 og ekki var feita gelti að flá erlendis.

***

Þá er komið að þætti Gylfa Magnússonar, prófessors við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og fyrrum ráðherra. Gylfi sá fréttina þar sem rætt var við Þóreyju og gat ekki orða bundist á samfélagsmiðlum. Gylfi reit:

Hér fullyrðir einn (Ragnar) að tap lífeyrissjóðanna í fyrra hafi verið 845 milljarðar og annar (Þórey) segir að það hafi verið 218 milljarðar. Svo er seinni talan bara sett í fyrirsögn og málið afgreitt þannig. Það er hins vegar tiltölulega einfalt að sjá að ef raunávöxtun var -11,6% og heildareignir vel á sjöunda þúsund milljarðar þá er fyrri talan mun nær lagi. Mér sýnist rétt svar vera u.þ.b. 815 milljarðar. 218 milljarða tapið er bara hluti sögunnar, það vantar rýrnun eigna vegna verðbólgu. Það er auðvitað ekki hægt að horfa framhjá henni. Það er annað mál að til að meta árangur í eignastýringu þarf að horfa til lengra tímabils en eins árs. Árið 2022 var vont ár á eignamörkuðum en kom í kjölfar margra ágætra. Meðalávöxtun lífeyrissjóðanna til lengri tíma er miklu betri en afleit afkoma árið 2022 gefur til kynna, sem betur fer. Endanlegar tölur fyrir 2023 liggja eðli máls skv. ekki fyrir en Seðlabankinn er búinn að birta tölur fyrir fyrstu 10 mánuði ársins. Þær geta ekki tilefni til bjartsýni, eignirnar rýrnuðu um 228 milljarða að raunvirði á þeim tíma. Það samsvarar líklega tapi upp á rúma 300 milljarða því að iðgjöld eru u.þ.b. 10 milljarðar á mánuði umfram lífeyrisgreiðslur. Það stefnir því í annað árið í röð með mjög neikvæðri raun-ávöxtun. Það kallar væntanlega í einhverjum tilfellum á lækkun lífeyrisgreiðslna og réttinda.

Það vekur sérstaka athygli að Gylfi varpar sjónum að rýrnun eigna vegna verðbólgu og telur þar með ef einhver eign í eigu lífeyrissjóðs hækkar um 5% á einhverju tímabili þegar verðbólga er 10%, svo eitthvað dæmi sé tekið, reiknist það til taps. Eins og gefur að skilja þá vakti þessi færsla athygli fjölmiðla og vafalaust flestir lesendur litlu nær um stöðu lífeyrissjóðanna.

***
Nú er það svo að lífeyrissjóðirnir töpuðu engum 800 milljörðum árið 2022. Starfsmenn sjóðanna eru ekki heldur að gera dauðaleit að þessum 218 milljörðum sem Þórey talaði um í fréttunum. Þetta fé tapaðist ekki heldur rýrnaði á árinu 2022. Vissulega stóðu fjárfestingatekjur ekki undir 3,5% raunávöxtun þetta erfiða ár en erfitt er að sjá hvaða tilgangi það þjónar að túlka mismuninn milli arðsemiskröfunnar og raunávöxtunar sem bókhaldslegt tap. Hugsanlega er það gert til þess að gera lífeyrissjóðina tortryggilega. Sú staðreynd að afkoman árið 2022 hefur ekki í þessari umræðu verið sett í samhengi við frammistöðu eignamarkaða í heild sinni það ár bendir óneitanlega til þess.

b287616e3f84d13ce020775dc3d1a0ce.jpg
b287616e3f84d13ce020775dc3d1a0ce.jpg
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)

Það vekur jafnframt sérstaka athygli að Gylfi kýs að mála dökka mynd af stöðu lífeyrissjóðanna vegna ávöxtunar á nýliðnu ári. Færsla hans er skrifuð um seinni hlutann í desember og eins og kemur fram hérna fyrir ofan gerir hann ráð fyrir „mjög neikvæðri raunávöxtun“ á árinu og það muni leiða til lækkunar lífeyrisgreiðslna og réttinda í einhverjum tilfellum. Eins og flestir vita sem fylgjast með eignamörkuðum átti sér stað skarpur viðsnúningur á verðbréfamarkaði hér á landi á síðasta fjórðungi síðasta árs og líklegt er að fjármagnstekjur lífeyrissjóðanna verði jákvæðar þegar uppi er staðið.

***

Eins og fyrr segir þarf að leita aftur til ársins 2009 til að finna árferði í líkingu við það sem var á mörkuðum 2022. Þá lágu lífeyrissjóðir undir mikilli gagnrýni. Í grein sem Gylfi skrifaði um sögulega ávöxtun lífeyrissjóðanna sem kom út í Þjóðarspegli Félagsvísindastofnunar árið 2013 segir hann:

„Ýmislegt hefur verið fullyrt um tjón sjóðanna í hruninu sem ekki stenst vel nánari skoðun. Til að reikna út tjón vegna mistaka í eignastýringu þarf ef vel á að vera að finna raunhæfan betri kost og bera áætlaðan árangur af þeirri leið saman við árangur af þeirri leið sem farin var í raun.“

Þessi orð Gylfa eiga jafnvel við nú og þá.

***

Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins, rammaði svo þessa umræðu ágætlega inn í grein sem birtist í Viðskiptablaðinu sem kom 5. janúar síðastliðinn. Þar segir Gunnar:

Lífeyrissjóðir fjárfesta að mestu í hlutabréfum og skuldabréfum sem eru þeir eignaflokkar sem hafa skilað sögulega hæstu ávöxtuninni. Þegar sjóðirnir ákveða fjárfestingar­stefnu sína velja þeir eignasamsetningu sem þeir telja að muni skila góðri langtíma­ávöxtun. Fyrirfram er vitað að eignaverð sveiflast og meira hjá eignaflokkum sem skila hárri ávöxtun. Vegna þessa liggur fyrir að fjármagnstekjur geta verið neikvæðar einstök ár og sömuleiðis ávöxtun. Þolinmóðum fjárfestum er hins vegar umbunað fyrir þessa áhættu með hærri langtímaávöxtun. Þegar lífeyrissjóður kaupir eign ræðst endanleg ávöxtun af mismun á kaupverði og söluverði eða uppgreiðsluverði að teknu tilliti til greiðslna á eignartíma (vextir, arður). Á meðan sjóður heldur á eign reiknar hann ávöxtun sem tekur mið af markaðsverði á hverjum tíma. Sjóðurinn innleysir ekki hagnað eða tap fyrr en hann selur eign eða skuldabréf er greitt upp en á eignartíma eru fjármagnstekjur ýmist jákvæðar eða neikvæðar.

Og að lokum segir hann:

Það dregur ekki upp rétta mynd að tala um neikvæðar fjármagnstekjur lífeyrissjóða eitt ár sem tap, hvað þá að bæta við reiknaðri verðbólgu og slá því upp sem stórfrétt og ýja að gáleysi við fjárfestingar. Umfjöllun um afkomu lífeyrissjóða verður að vera fagleg og líta þarf til lengra tímabils. Íslenskir lífeyrissjóðir hafa blessunarlega skilað góðri langtímaávöxtun frá stofnun ef frá eru talin óðaverðbólguárin 1971-1979. Frá 1980 hefur raunávöxtun á ári að jafnaði verið 4,6%.

Hægt er að taka undir hvert orð.

Fjölmiðlarýni er einn af föstum pistlum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 10. janúar 2024.