Það er stundum sagt að hlutverk fjölmiðla sé ekki síst að endurspegla þann veruleika sem almenningur býr við. Þrátt fyrir það virðast sumir fjölmiðlar vera uppteknari af því að varpa fram einhverjum allt öðrum veruleika sem á sér litla skírskotun í daglegt líf þorra manna.

Þetta sést þegar fjölmiðlar hanga eins og hundar á roði á einhverjum tilteknum málum eða uppákomum óháð fréttagildi þeirra. Oftar en ekki er þetta sama roðið sem kjamsað er á í ákveðnum en háværum afkimum samfélagsmiðla. Fjölmiðlar í slíkum ham eiga fátt skylt með fréttamiðlum.

Þannig gekk óskiljanleg reiðialda yfir íslenskt samfélag fyrr í vetur. Reyndar gekk hún bara yfir ákveðna fjölmiðla sem
miðluðu reiðinni áfram til almennings. Þá spurðist það út að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefði beint spjótum sínum að Svandísi Svavarsdóttir matvælaráðherra á ráðstefnu sem Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi stóðu fyrir.

Efnislega sagði Áslaug við þetta tækifæri að hún ætlaði ekki að ræða málefni sem voru á borði Svandísar á ráðstefnunni heldur um nýsköpun og bætti við að ríkisstjórnarsamstarf sem Sjálfstæðisflokkurinn tæki þátt í væri skárri kostur en ríkisstjórn sem nyti aðkomu flokksins. Á meðan á hún sagði þetta varpaði hún glæru með mynd af matvælaráðherra og kýrauga á fiskiskipi.

Af einhverjum ástæðum voru þessi ummæli til þess að reiðibylgja skall yfir þjóðfélagið – nánar tiltekið yfir Efstaleitið og á samfélagsmiðlum. Umfjöllun RÚV um málið var svo yfirgripsmikil að ekki færri en fjórir fréttamenn komu að vinnslunni. Ríkið sagði Áslaugu Örnu hafa „snuprað“ Svandísi og „hæðst að“ ráðuneyti hennar. Þá upplýsti fréttastofa RÚV að ummæli Áslaugar hefðu fallið í grýttan jarðveg innan VG „svo vægt sé til orða tekið“ og að VG-liðar hugsi „Áslaugu Örnu þegjandi þörfina“.

Þrátt fyrir þessar fullyrðingar Ríkisútvarpsins könnuðust starfsmenn Vinstri grænna, flokks Svandísar, ekki við neina ókyrrð. Í fréttabréfi flokksskrifstofunnar í kjölfarið á fréttaflutningnum var fjallað um fréttaflutning RÚV um meinta ólgu innan VG og hann sagður hafa komið á óvart. Engin símtöl hafi borist vegna málsins og allt væri með kyrrum kjörum.

***
Þessi uppákoma er rifjuð upp vegna þess mikla fjaðrafoks sem varð á dögunum eftir að Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra drap niður penna á Facebook-síðu sinni. Viðbrögðin við færslunni voru slík að hægt er að efast um að margir þeir sem tjáðu sig um hana hafi yfirhöfuð lesið innlegg Bjarna.

Í stuttu máli er færsla Bjarna þríþætt: Í fyrsta lagi lýsti hann óánægju sinni með að mótmælendur fengju að hafast við í tjaldbúðum á Austurvelli og það til langframa. Í öðru lagi benti hann á að íslensk stjórnvöld hefðu lagt sitt af mörkum í móttöku flóttamanna og nefndi að ekkert Norðurlandanna hefði tekið við fleiri Palestínumönnum undanfarið og að ekkert annað land hefði tekið til flýtimeðferðar beiðnir um fjölskyldusameiningar eftir hryðjuverkaárásirnar 7. október. Í þriðja lagi nefndi Bjarni þá augljósu staðreynd að núverandi stefna í málefnum útlendinga hefði reynt mjög á þanþol kerfisins og væri komin úr böndunum bæði hvað varðar kostnað og fjölda umsókna. Við því þyrfti að bregðast og nefndi hann að samræma mætti umbúnaðinn því sem þekktist með öðrum norrænum þjóðum.

Nú má vel vera að menn séu ekki allir sammála þessum skoðunum Bjarna, þó eflaust endurspegli þær viðhorf margra. Um efnisatriði skrifanna hirti þó enginn um að andæfa eða svara, heldur var utanríkisráðherra umsvifalaust úthrópaður sem kynþáttahatari og þaðan af verra af mörgum háværustu áhrifavöldum internetsins. Fjölmiðlar biðu ekki boðanna og drógu á dekk álitsgjafa og stjórnmálaskýrendur sem töldu færsluna marka þáttaskil í íslenskum stjórnmálum og vísbendingu um að Sjálfstæðisflokkurinn væri að umbreytast í flokk lýðskrumara sem kyntu undir óvild gagnvart útlendingum.

Höskuldur Kári Schram, fréttamaður Ríkisútvarpsins, gekk svo langt að hann spurði Katrínu Jakobsdóttir forsætisráðherra hvort það væri við hæfi að Bjarni tjáði sig með þessum hætti! Blasir þá ekki við að þar er afstaða og forsendur Höskuldar sjálfs farnar að ráða meiru í fréttinni en orð Bjarna?

**
Vitaskuld voru svo sagðar fréttir af því að skrif Bjarna hefðu verið kærð til lögreglu vegna hatursorðræðu. Það verður fróðlegt að sjá hvaða niðurstöðum rannsókn þess máls skilar. Í hverju á hatrið að felast?

Það er fullkomlega eðlilegt að fólk hafi skoðun á því að mótmælendur slái upp tjaldbúðum við Austurvöll. Utanríkisráðherra er augljóslega ekki hrifinn af því. Vafalaust eru sumir ósammála honum í þeim efnum. Lengra nær málið ekki. Það er fjarstæðukennt að halda því fram að þetta hafi sérstaklega beinst að rétti Palestínumanna og annarra til að mótmæla. Allar líkur eru á því að utanríkisráðherra hefði jafnframt haft megnustu skömm á tjaldbúðum hvalafriðunarsinna eða samtaka iðnaðarmanna gegn klámi svo handahófskennd dæmi séu tekin. Þetta kemur kynþáttahatri ekkert við eins og Kolbrún Bergþórsdóttir segir í pistli sínum í sunnudagsblaði Moggans.

Varla felst kynþáttahyggja í þeim tölulegu staðreyndum sem Bjarni setur fram í færslu sinni. Það sama gildir um þá staðreynd að beinn kostnaður ríkissjóðs vegna móttöku flóttamanna er að minnsta kosti 15 milljarðar á ári og hefur margfaldast á undanförnum árum. Sú pólitíska skoðun að þessi kostnaður sé kominn úr böndunum og að kerfið ráði ekki við komu svo margra flóttamanna á fullkominn rétt á sér. Hún er réttmæt eins og sú skoðun að íslensk stjórnvöld eigi að verja enn meiri fjármunum í móttöku flóttamanna. Um þetta eiga stjórnmálamenn að takast með rökum og án þess að saka hver annan um kynþáttahatur.

Það sem fór fyrir brjóstið á einhverjum er að utanríkisráðherra tók fram í lok færslu sinnar að eitt af því sem stjórnvöld þurfa að gera er að styrkja lögreglu og auka heimildir hennar í baráttunni gegn alþjóðlegri brotastarfsemi og þótti sumum að þarna væri ráðherra að bendla flóttamenn við glæpastarfsemi. Gott og vel en það þarf einbeittan vilja til þess að lesa það út úr skrifunum og þetta er í besta falli tilefni til að fjölmiðlar biðji ráðherra að skýra orð sín betur.

***
Sigríður Hagalín Björnsdóttir þáttastjórnandi fékk Bjarna einmitt til sín í Silfrið á mánudag í síðustu viku. Ekki spurði hún Bjarna mikið út þá sálma. En eitt af því sem hún spurði ráðherrann var hvort það væri nokkur ástæða til þess að takmarka komu flóttamanna hingað til lands sökum þess að hér væri hverfandi atvinnuleysi.

Spurningin felur í sér leiðarstef í baráttu samtakanna No borders en sú skoðun að fólki eigi að vera frjálst að taka upp búsetu hér á landi hefur ekki til þessa verið áberandi í íslenskum stjórnmálum. Þessi skoðun er á alveg rétt á sér en hún verður ekki tekin alvarlega án þess að áhrif slíks fyrirkomulags á velferðarkerfið verði rædd í þaula.

Miðað við þátttöku stjórnarandstöðunnar í þessu upphlaupi má einnig velta fyrir sér hvort flokkur á borð við Samfylkinguna og Pírata aðhyllist slíka stefnu í útlendingamálum. Það væri að minnsta kosti fróðlegt ef fjölmiðlar spyrðu leiðtoga þessara flokka út í áherslur þeirra í útlendingamálum í stað þess að rétta þeim míkrófón til þess eins að enduróma fordæmingarkórinn sem söng yfir utanríkisráðherra.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, skrifaði þannig í Morgunblaðið í síðustu viku: „Fyrir helgi skrifaði Bjarni Benediktsson, utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, sig út úr ábyrgri og lýðræðislegri umræðu um málefni útlendinga hér á landi með ósmekklegri samsuðu útlendingaandúðar og hræðsluáróðurs.“ Þessi skrif kalla á að Þórunn útskýri fyrir kjósendum hvað felist í ábyrgri og lýðræðislegri umræðu um þennan málaflokk. Eitthvað meira en bara „Það sem mér finnst og rétt er…“

***
Í síðasta fjölmiðlapistli var sagt að fundargerðir stjórnar Blaðamannafélagsins væru ekki aðgengilegar á heimasíðu félagsins. Það er orðum of aukið og biðst undirritaður afsökunar á þeirri rangfærslu. Fundargerðirnar eru aðgengilegar á lokuðu vefsvæði
fyrir félagsmenn.

130076.original
130076.original

Fundargerðirnar eru í mörgum tilfellum sérstaklega ítarlegar og er það til fyrirmyndar fyrir félagsmenn. Ýmislegt áhugavert má lesa í fundargerðum síðasta árs sem ekki var á vitorði allra blaðamanna.

Þannig má sjá að Sigríður Dögg Auðunsdóttir hefur verið í hálfu starfi hjá Blaðamannafélaginu frá því í vor samhliða störfum sínum fyrir Ríkisútvarpið vegna verkefnastöðu samtakanna. Af lestri fundargerðanna má ráða að þau verkefni snúa fyrst og fremst að stofnun sjóðs sem blaðamannafélagið ætlar að nota til að borga blaðamönnum fyrir valdar umfjallanir. Viðskiptablaðið sagði fyrst miðla frá stofnun sjóðsins Glætan sem verður notaður í þessum tilgangi. Þá kemur fram að Blaðamannafélagið ætli að standa fyrir auglýsinga- og kynningarherferð um mikilvægi blaðamennsku á næstu misserum og hefur gengið til samninga við auglýsingastofuna Aton.JL en áætlað er verkefnið kosti tæpar fimm milljónir króna.

Fjölmiðlarýni er einn af föstum dálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist í blaðinu sem kom út miðvikudaginn 31. janúar.