Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri hefur nú svarað fyrirspurn Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur, forvera síns í starfi og samflokkskonu, sem hún setti á facebook síðu hans eins og Viðskiptablaðið fjallaði um tæpum sólarhring eftir að hún setti hana fram.

Segir Dagur í sínu starfi að stefna meirihlutans sé að stuðla að félagslegri blöndun um alla borg og á öllum reitum. Tekur Dagur þar djúpt í árinni og segir uppbygginguna á Kirkjusandi vera hluta af stærsta átaki í sögu borgarinnar í uppbyggingu húsnæðis á viðráðanlegu verði.

Ekki allir í félagslegum erfiðleikum

Segir hann áætla að 40% af heildaruppbyggingu næstu ára verði af þeim toga eða um 3.700 íbúðir. „Þar er augljóslega alls konar fólk og alls ekki allir sem eiga í félagslegum erfiðleikum,“ segir Dagur um íbúðirnar sem seldar verði undir markaðsverði til valdra hópa.

„Sama mun eiga við um þessar íbúðir á Kirkjusandi, þar mun búa prýðilegur þverskurður af samfélaginu. Við teljum að hverfið beri það vel - en það er helst í hluta Breiðholts hverfis sem félagslegar íbúðir eru umfram meðaltal.

Þar ætlum við ekki að fjölga þeim en viðbæturnar dreifast að öðru leyti í öll hverfi og á því sem næst alla nýja uppbyggingarreiti. Það höfum við tryggt með samningum í tengslum við skipulagsbreytingar og lóðaùthlutanir.“

Skólarnir þegar sprungnir

Einnig svarar Dagur fyrirspurn Magnúsar Halldórssonar á sama þræði sem hefur áhyggjur af því að skólarnir í hverfinu séu þegar sprungnir.

„Það verður ný ungbarnaleikskóladeild á Kirkjusandi en einnig verður gripið til aðgerða varðandi grunnskólana,“ segir Dagur. „Þær tillögur eru nú í rýni.“