Heimir Harðarson, skipstjóri og einn af þremur eigendum Norðursiglingar á Húsavík, segir að ólíkt mörgum íslenskum fyrirtækjum hafi árið 2009 verið gósentíð hjá Norðursiglingu. „Haustið 2009 réðumst við í miklar fjárfestingar. Við festum kaup á stórum eikarbát árið 2006 sem við unnum rólega í án þess eyða um efni fram. Eftir góða vertíð 2009 spýttum við í lófana og kláruðum skipið sem er nú okkar stærsta skip með 140 farþega flutningsgetu. Á sama tíma fjárfestum við í töluvert minni bát og fórum með hann til Danmerkur í sérhæfðan slipp og var honum breytt úr nánast ónýtum fiskidalli í glæsilega skonnortu,“ segir Heimir. Aðspurður um ástæðu þess að leitað var út fyrir landsteinana með framkvæmdirnar sagði Heimir að þekking Dana í bransanum þætti óviðjafnanleg. Slíkar framkvæmdir eru þó mögulegar á Íslandi en taka miklu lengri tíma og aðföng eru erfiðari. Þrátt fyrir að gengi dönsku krónunnar hafi staðið í 25 krónum þótti betri kostur að gera upp bátinn í Danmörku en hérlendis.

Erlendir ferðamenn um 95% gesta

„Vertíðin hjá okkur er rúmlega hálft árið, frá apríl og fram í október. Langvinsælasta ferð Norðursiglingar er upphaflega þriggja tíma hvalaskoðunarferðin þar sem hugmyndin er fjölskylduvæn; gamall íslenskur eikarbátur, aukafatnaður um borð, teppi og boðið upp á kakó og snúð,“ segir Heimir. Aðspurður um ferðamannafjölda segir Heimir að undantekningarlítið hafi ferðamönnum fjölgað frá því að fyrirtækið hóf göngu sína. Gestir Norðursiglingar eru nú um 30- 40 þúsund manns á ári og af því eru Íslendingar aðeins 5%. Ásóknin er mjög árstíðarbundin, langflestir koma í júlí og ágúst og eru 700-800 farþegar á bestu dögunum. Fyrirtækið hefur vaxið mikið frá stofnun þess og eru ársstörf nú 35. Yfir sumarið eru 100 manns á launaskrá í 75 stöðugildum. Á veturna fer starfsmannafjöldi ekki undir 14 manns. „Á húsvískan mælikvarða er þetta mjög stórt fyrirtæki,“ segir Heimir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .