Fjármálaeftirlitið sér ástæðu til að gera athugasemd við að frétt Morgunblaðsins frá í morgun, sem Viðskiptablaðið fjallaði um , hafi látið að því liggja að upplýsingaleki hafi átt sér stað um vísun mála tengdum Borgunar til héraðssaksóknara.

Fjármálaeftirlitið segir hins vegar að fyrir liggi að héraðssaksóknari hafi upplýst fjölmiðla um málið og engar vísbendingar um upplýsingaleka liggi fyrir.

Segir í frétt eftirlitsins að það sé föst regla hjá stofnuninni að upplýsa ekki um slík mál, en það geri hins vegar ekki athugasemdir við að þeir sem taki við málinu úr höndum þess upplýsi um hvort mál hafi borist þeim.

Segir Fjármálaeftirlitið þvert á ummæli stjórnarformanns Borgunar þess efnis að um undarlega stjórnsýslu hafi verið að ræða, að það sé eðlileg stjórnsýsla að viðtakandi ábendingar eða vísunar meti hvernig eðlilegt sé að upplýsa almenning eða hlutaðeigandi um tilvist eða efni máls.

Einnig bendir eftirlitið á að stjórnsýslulög gildi almennt ekki um rannsókn sakamála.