Samtök atvinnulífsins hafa sent frá sér umsögn um fjárlagafrumvarpið fyrir 2019. Þetta kemur fram í frétt á vef Samtakanna.

Samtökin gagnrýna áframhaldandi útþenslu ríkisins, en afgangur af rekstri ríkissjóðs er áætlaður 29 milljarðar á næsta ári sem er um 1% af vergri landsframleiðslu. Þá segja Samtökin það vera varhugavert að ríkið treysti á mikinn hagvöxt þar sem hann hafi nú náð sögulegum hæðum. SA fagnar því að stjórnvöld boði aðgerðir til að mæta kröfum á vinnumarkaði meðal annars hækkun persónuafsláttar og barnabóta.

„Ábyrgt væri að halda aftur af útgjaldavexti á uppgangstímum og búa í haginn fyrir niðursveiflu. Það eru því vonbrigði að stjórnvöld skuli ekki sýna meira aðhald í fjárlagafrumvarpinu. Útgjöld eiga áfram að vaxa og aukast um 100 milljarða króna á fjórum árum verði frumvarpið samþykkt óbreytt," segir í umsögninni.

100 milljarða skattahækkun

Samtökin segja skatttekjur á hvern Íslending muni slá fyrri met á næsta ári. „Að mati SA munu skattahækkanir síðustu ára skila ríkissjóði rúmlega 100 milljörðum króna árlega í viðbótartekjur. Það jafngildir heildarframlagi ríkisins til sjúkrahúsþjónustu. Fyrirhuguð lækkun tryggingargjalds er fagnaðarefni en aðeins dropi í hafið. Ísland verður eftir sem áður háskattaríki í alþjóðlegum samanburði og það ætti að vera forgangsmál að draga til baka þær skattahækkanir  sem gripið var til í kjölfar bankahrunsins," segir í umsögninni.