Svínaræktarfélag Íslands íhugar að ganga úr Bændasamtökum Íslands. Þetta segir Hörður Harðarson, formaður Svínaræktarfélags Íslands, í viðtali við Viðskiptablaðið.

„Við erum einfaldlega að skoða hvar okkar hagsmunum er best komið,” segir  Hörður. „Við höfum ekkert á móti Bændasamtökunum og teljum mjög mikilvægt að það séu einhvers konar heildarsamtök bænda.”

Að mati Svínaræktarfélagsins eru framlög í búvörusamningum ríkisins um 440 milljónir íslenskra króna. Þetta fjármagn er að mati félagsins ekki nægur stuðningur við greinina, þar eð kostnaður við nýja löggjöf um velferð dýra mun kosta svínabú um 2,5 - 3,2 milljarða króna.

„Við erum fyrst og fremst að velta fyrir okkur stöðu okkar í reglugerðum um aukna velferð dýra,” segir Hörður.

„Þetta er stór pakki og við erum ánægð með að stjórnvöld hafi lagt upp með metnaðarfullar reglur með það að þeiðarljósi að velferð dýra sé sem best. Því er þó sleppt hvernig á að fjármagna þessa breytingu - sem er veigamikill þáttur og við höfum ekki fengið svör við.”

Þá segir Hörður einnig að íþyngjandi reglur um aðbúnað auk þess sem auknar heimildir til innflutnings svínakjöts sem taka gildi á næsta ári vegi alvarlega að rótum íslenskrar svínaræktar.