Hönnunar og gjafavöruverslunin Epal skilaði 10,6 milljón króna hagnaði á árinu 2011 sem er viðsnúningur frá árinu 2010 þegar félagið tapaði um 2,5 milljónum króna. Í ársreikningi félagsins kemur fram að félagið tekjufærði á árinu 31 milljón króna vegna ofgreiddrar húsaleigu. Þessi færsla gerir það að verkum að rekstrarkostnaður félagsins lækkar talsvert á milli ára, eða úr rúmum 60 milljónum króna í tæpar 34 milljónir króna.

Í ársreikningi félagsins kemur fram að seldar voru vörur fyrir 456 milljónir króna í fyrra en það er um 23,5% aukning í sölu á vörum fyrirtækisins. Epal rekur í dag þrjár verslanir, í Hörpu, Leifsstöð og í Skeifunni. Harpa opnaði í maí 2011 sem útskýrir söluaukningu Epal að einhverju leyti.