*

þriðjudagur, 18. desember 2018
Innlent 13. mars 2018 15:52

Vill stefnu um kjötrækt

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, vill að Ísland búi yfir aðgerðaáætlun um innleiðingu tækni undir kjötræktun.

Ritstjórn
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Aðsend mynd

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, hefur lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að Alþingi feli sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að kanna stöðu kjötræktar og skipuleggja aðgerðaáætlun um innleiðingu tækni fyrir íslenskan landbúnað með það að markmiði að flýta fyrir því að kjötrækt verði samkeppnishæf við afurðir af hefðbundinni veiði eða rækun dýra til manneldis.

Í greinargerð tillögunnar segir að kjötrækt sé aðferð til þess að búa til kjöt án þess að slátra þurfi dýri en slíkt kjöt er alla jafna ræktað í tilraunastofum í dag en gæti orðið fjöldaframleitt á næstu árum að því er Washington Post greinir frá. Er þar vitnað til spádáms Winston Churchill frá árinu 1931 þar sem hann spáði því að innan 50 ára yrði mannkynið laust við þann fáránleika að þurfa að rækta heilan kjúkling til þess að borða bara læri eða bringu.

Samkvæmt tillögunni yrði ráðherra gert að leggja fram tillögu um stefnu stjórnvalda hvað varðar kjötrækt eigi síðar en 1. mars 2019.

Árið 1995 samþykkti matvælastofnun Bandaríkjanna tilraunir á kjötræktun með það að markmiði um að matur yrði ekki vandamál í löngum geimferðum.

Þá segir einnig að helsti kostur þess að rækta kjöt umfram dýrarækt til manneldis séu umhverfisáhrifin og, þótt það eigi síður við á Íslandi, að ekki þurfi að nota sýklalyf í kjötækt.

Viðamiklar rannsóknir hafa verið gerðar á umhverfisáhrifum kjötræktar en slík rækt sendir 78-96% minna af gróðurhúsalofttegundum frá sér en hefðbundin dýrarækt, notar 99% minna landrými og 82-96% minna af vatni.

„Óháð því hvað Ísland gerir til þess að undirbúa tilkomu þessarar tækni til matvælaframleiðslu mun hérlendis þurfa að glíma við þær breytingar sem kjötrækt hefur á neysluvenjur. Þó að eftirspurn eftir kjöti af dýrum hverfi örugglega ekki minnkar hún líklega mjög, þó ekki væri nema vegna umhverfisáhrifa. Það hefur mögulega veruleg áhrif á landbúnað og sjávarútveg á Íslandi sem og annars staðar í heiminum. Því er mjög brýnt að Ísland sé undirbúið fyrir þessar tækniframfarir, bæði með aðgerðaáætlun og stefnu,“ segir í greinargerðinni.