Að utan hefur BMW X1 fengið sterkari línur. Hönnunin leitar meira til X rafmagnsbílsins frá BMW enda á ferðinni ný þróun hjá hinum bæverska bílaframleiðanda. Umhverfisvænni kostur fyrir nýja tíma eru kannski skilaboðin.

Sterkari línur passa bílnum vel og sama hvert á hann er litið þá er hér á ferðinni einstaklega laglegur bíll. Það sést að hugsað hefur verið út í minnstu smáatriði í hönnun bílsins. Einkennandi BMW grillið er með silfurlitaðri áferð sem og listum að framan og aftan sem og á hliðum.

Auk þess eru silfurlitaðir listar utan um glugga á hliðum. Þetta samspil af svörtum og silfurlituðum listum gefa bílnum kröftugt en um leið fágað útlit. Afgerandi breyting hefur orðið á afturljósunum sem nú hafa fengið eins konar þrívíddar útfærslu.

Ný og klassísk hönnun

Hönnun innan rýmisins ber þess merki að hér er á ferðinni BMW. Klassísk einkenni eru til staðar líkt og stýrið, sem er þó með færri og einfaldari hnappa en í fyrirrennara sínum. Stór upplýsingaskjár er fyrir ökumann sem samanstendur af 10,25” upplýsingaskjá í mælaborði og 10,28” snertiskjá sem saman mynda líkt og einn samsettan panorama skjá.

Að auki er sjónlínuskjár sem varpar upplýsingum á framrúðu. Í miðjusokki er gírskiptingin sem einskonar sleði og virkar það vel. Þá eru aukastjórntakkar, m.a. fyrir akstursstillingar sem og útvarp í miðjum stokknum sem og þráðlaus símahleðsla. Miðstöðin ber ættarsvipinn sem og stafræn útfærsla mælaborðsins sem er samskonar og í öðrum nýrri BMW módelum.

Þá er hljóðheimur Hans Zimmer virkjaður við hinar ýmsu aðgerðir í bílnum, allt frá því að taka á móti ökumanni þar til slökkt er á bílnum. Að mínu mati eykur það tilfinninguna fyrir bílnum og er orðin að sérstakri BMW upplifun sem fylgir rafvæðingunni hjá bílaframleiðandanum. Til þess að upplifunin á hljóðheiminum verði sem best er BMW iX1 með 6 Harman Kardon hátölurum sem hljóma vel.

Þéttur og vel byggður bíll

BMW iX1 er minnsti bíllinn í X bílalínunni en er þrátt fyrir það fullvaxta sportjeppi. Bíllinn er fjórhjóladrifinn og er uppgefin drægni 440 km. IX1 er með spólvörn, stöðugleikastýringu, sjálfvirka neyðarhemlun og árekstrarvörn sem öryggisbúnað.

Hann kemur á 18” álfelgum og með skyggðum rúðum. Bíllinn sem var reynsluekinn var með ljósu vegan leðri sem gefur bílnum eðal klassa. Sætin eru sérstök sportsæti sem gefa góðan stuðning og eru framsætin rafdrifin.

Bíllinn er með 360 gráðu myndavél auk bakkmyndavélar og blindhornavara. Hér er á ferðinni þéttur og vel byggður bíll sem liggur einstaklega vel og veitir góða akstursupplifun. Fjöðrunin er góð og krafturinn er til staðar. BMW iX1 er í boði í X-Line útfærslunni og kostar hún 10.590.000 kr.

Verkefni i

BMW fór af stað með verkefni i árið 2008. Þá fór af stað hugmyndavinna um framtíðar hreyfanleika, þá aðallega með hugmyndina um sjálfbæran ferðamáta í borg og rafvæðingu. Fyrstu rafbílarnir voru BMW ActiveE og Mini E og síðar hinn smái BMW i3 sem kom á markað árið 2013. Framleiðslu hans var hætt árið 2022 en alls voru 250.000 i3 smíðaðir.

Til að lesa meira

Hægt að er kaupa áskrift að Viðskiptablaðinu, Fiskifréttum og Frjálsri verslun hér.

Verð frá 4.495 kr. á mánuði