Seðlabankinn skilaði nýlega umsögn um frumvarp til laga um slit ógjaldfærra opinberra aðila, sem jafnan er kennt við ÍL-sjóð enda lagt fram fyrst og síðast til að skapa lagagrundvöll fyrir gjaldþrotaskiptum sjóðsins og uppgjöri Íbúðabréfanna svokölluðu sem hann er útgefandi að.

Óhætt er að segja að umsögn bankans hafi verið sæmilega gagnrýnin á hin áformuðu lög, en Gunnar segir ábendingar bankans í raun borðleggjandi.

„Við vorum bara að benda á hið augljósa: Það er hætt við að það myndi enda heldur illa ef ákveðið yrði að fara þessa hefðbundnu gjaldþrotaleið að selja eignir sjóðsins á markaði og greiða út til kröfuhafanna. Markaðurinn ræður einfaldlega ekki við þetta magn af bréfum, þetta er af allt annarri stærðargráðu en sú velta sem við erum að sjá daglega eða jafnvel vikulega.“

Slík sala gæti þannig haft veruleg áhrif á verðlagningu ríkisskuldabréfa og með því ógnað fjármálastöðugleika. „Það verður því að nálgast uppgjör sjóðsins með öðrum hætti.“

Að því sögðu tekur Gunnar þó fram að hann sjái vel skynsemina í því að málið verði klárað og sjóðurinn gerður upp, til að eyða þeirri óvissu og því flækjustigi sem núverandi staða hans feli í sér.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið – sem fer með málefni sjóðsins – hóf fyrr á þessu ári formlegar samningaviðræður við 18 af 20 lífeyrissjóðum landsins, sem eru stærstu eigendur bréfanna, um slit og uppgjör ÍL-sjóðs.

Nánar er rætt við Gunnar í Viðskiptablaðinu sem kom út 17. apríl. Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.