Gunnar Jakobsson varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika mun senn láta af embætti eftir að hafa beðist lausnar á dögunum, tæpu ári fyrir lok fimm ára skipunartímans, til að taka við nýju starfi hjá banka á meginlandi Evrópu.

Nafn hins verðandi vinnuveitanda getur hann ekki gefið upp eins og sakir standa sökum trúnaðar, en fram hefur komið að um er að ræða banka í Mílanó á Norður-Ítalíu.

Því til viðbótar upplýsir hann blaðamann um eðli starfsins, sem svipar að miklu leyti til þess sem hann fékkst við hjá bandaríska fjárfestingabankanum Goldman Sachs áður en Katrín Jakobsdóttir þáverandi forsætisráðherra skipaði hann í núverandi embætti sitt í þeim örlagaríka mánuði mars 2020. „Ég er að fara aftur í mína gömlu starfsgrein: áhættustýringu.“

Nánar tiltekið mun Gunnar bera starfstitilinn group head of financial risk, sem mætti íslenska sem yfirmaður fjárhagsáhættustýringar samstæðunnar. Sem slíkur mun hann heyra beint undir áhættustjóra bankans, en áhættustýringin skiptist alls í þrjá meginhluta sem hver og einn hefur sinn ábyrgðarmann.

Auk fjárhagsáhættunnar (e. financial risk) er þar um að ræða útlánaáhættu (e. Credit risk) og rekstraráhættu (e. Non-financial risk). Fjárhagsáhættan sem Gunnar kemur til með að stýra skiptist svo aftur niður í nokkra meginþætti: markaðsáhættu (e. Market risk), lausafjáráhættu (e. liquidity risk) og afleidda mótaðilaáhættu (e. counterparty risk).

„Þetta er í rauninni flestallt annað en útlánaáhættan, en markaðs- og lausafjáráhættan eru náttúrulega eitthvað sem ég hafði umsjón með í mínu gamla starfi svo það ættu að verða hæg heimatökin við það að minnsta kosti.”

„Mér er falið að gæta sjónarmiða fjármálastöðugleika í nefndinni, og það er náttúrulega hættan eftir því sem vaxtastigið helst hátt lengur, að heimilin og fyrirtækin muni á endanum lenda í meiri vanskilum en í dag. Það eru alveg hreinar línur.“

Í þeim efnum bendir Gunnar á að viðkvæmasti hópurinn og sá sem fyrstur yrði til að lenda í vandræðum séu ekki þeir sem horfi fram á „stökkbreytta“ greiðslubyrði óverðtryggðra lána, heldur þeir sem skuldi á breytilegum verðtryggðum vöxtum sem nú hafa meira en tvöfaldast, og í sumum tilfellum jafnvel hátt í þrefaldast, á tveimur árum.

„Það er ekkert skjól þar. Þau fengu lánað á einhverjum 1,5% vöxtum og eru núna í 4% og hafa lítil sem engin úrræði til að létta hjá sér greiðslubyrðina. Ef verðbólgan verður þrálátari en vonir standa til gætu jafnvel þeir sem festu vexti til þriggja eða fimm ára á þeim botni endað á að lenda í vandræðum.“

Nánar er rætt við Gunnar í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.