Ljóst er að hjá meirihluta félaga á Aðalmarkaði Kauphallarinnar fækkaði hluthöfum milli ára, miðað við tölfræði sem gefin er upp í ársuppgjörum. Hjá Icelandair, Íslandsbanka og Arion banka – þeim þremur félögum með fjölmennustu hluthafahópana í Kauphöllinni – fækkaði hluthöfum um 7-11% milli ára.

Það liggur fyrir að hluthöfum a.m.k. sjö félaga á Aðalmarkaðnum fjölgaði á síðasta ári. Af þeim félögum sem efndu ekki til almenns hlutafjárútboðs fjölgaði hluthöfum með skráð hlutabréf hér á landi mest hjá líftæknilyfjafyrirtækinu Alvotech, sem er tvískráð í Nasdaq kauphöllina í New York og á Aðalmarkaði Kauphallarinnar.

Heildarfjöldi aðila sem eiga hlutabréf í Alvotech sem skráð eru hjá Nasdaq Iceland fjórfaldaðist milli ára, úr 843 í 3.562. Í svari Alvotech við fyrirspurn Viðskiptablaðsins kemur fram að hluthöfum félagsins hér á landi fjölgaði um meira en eitt þúsund á fyrstu sjö vikum þessa árs og voru 4.346 þann 19. febrúar síðastliðinn.

Málmleitarfélagið Amaroq Minerals, sem heldur á víðtækum rannsóknar- og vinnsluheimildum á Grænlandi, var með um 800 hluthafa sem áttu skráð hlutabréf hér á landi í lok síðasta árs, samanborið við 237 í árslok 2022. Í kjölfar 7,6 milljarða króna lokaðs hlutafjárútboðs í síðasta mánuði var félagið með yfir 1.100 hluthafa hér á landi.

„Þetta hefur gerst í gegnum eftirmarkaðinn í Kauphöllinni hjá þessum tveimur,“ segir Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar. um fjölgun hluthafa Alvotech og Amaroq þrátt fyrir að þau hafi ekki efnt til almenns hlutafjárútboðs.

„Aðalleið einstaklinga inn á markaðinn í gegnum tíðina hefur verið í gegnum útboð. Þetta eru klárlega undantekningar á því og er kannski til merkis um það sem koma skal, að eftir því sem almennur áhugi á markaðnum verður meiri, þá mun þátttaka þeirra örugglega færast í auknum mæli yfir á eftirmarkaðinn. Ég er sannfærður um að við munum sjá leitni í þessa átt.“

Fréttin er hluti af ítarlegri umfjöllun um þátttöku einstaklinga á íslenska hlutabréfamarkaðnum sem finna má í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun.