Ari Fenger hætti sem formaður á aðalfundi Viðskiptaráðs sem fór fram í gær en hann tók við sem formaður ráðsins árið 2020 og var endurkjörinn tveimur árum síðar. Samkvæmt lögum ráðsins má formaður einungis sitja í fjögur ár í senn. Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, leysir Ara af hólmi sem formaður Viðskiptaráðs. Ari kveðst ganga sáttur frá borði en um leið með söknuði.

„Mér finnst passlegt að formaður hafi ekki kost á að sitja lengur en í fjögur ár í senn. Ég hef setið í stjórn Viðskiptaráðs í tíu ár, þar af fjögur sem formaður, svo það er kominn tími til að hleypa nýjum aðila að. Þetta hafa verið áhugaverð fjögur ár og ég er mjög ánægður með að hafa fengið tækifæri til að gegna formennsku í ráðinu. Ég er þakklátur fyrir þann stuðning sem ég hef fengið frá aðildarfélögum, starfsfólki, stjórn og öðrum sem tengjast ráðinu á þessum árum.“

Fjögurra ára tímabilið hafi verið töluvert frábrugðin því sem hann reiknaði með þegar er hann tók við formennskunni. „Við höfum meira þurft að bregðast við þeim áskorunum sem hafa komið upp, svolítið á kostnað stefnumótandi vinnu sem maður hefði frekar viljað einblína á. Fyrstu tvö árin litast fyrst og fremst af heimsfaraldri og ekki löngu eftir að allar sóttvarnaraðgerðir voru felldar á brott réðust Rússar inn í Úkraínu með tilheyrandi röskunum í aðfangakeðjum á heimsvísu, sem voru þegar laskaðar vegna heimsfaraldurs. Til að bæta gráu ofan á svart hófust svo jarðhræringar í Grindavík.“

Starf Viðskiptaráðs hafi því að nokkru leyti snúist um að koma hugmyndum á framfæri til stjórnvalda um möguleg viðbrögð við fyrrnefndum áföllum. „Skiljanlega hafa verkefni stjórnvalda mörg snúist um að koma fram með viðbrögð og aðgerðir til að bregðast við þessum skakkaföllum.“

Ari bendir á að forsvarsmenn fyrirtækja einblíni oft á tíðum einungis á eigin rekstur og rekstrarumhverfi. Þar af leiðandi sé það hollt fyrir alla innan atvinnulífsins að víkka sjóndeildarhringinn með þátttöku í starfsemi Viðskiptaráðs. „Ég hef kynnst og starfað með fjölmörgu hæfileikaríku og flottu fólki hjá Viðskiptaráði og sömuleiðis í gegnum samstarf við önnur samtök í Húsi atvinnulífsins. Fyrir það er ég þakklátur.“

Þarft þing um orkumálin

Ari er heilt yfir sáttur með hvernig starfsemi ráðsins gekk í formannstíð hans. „Ég er sáttur með það sem stjórn Viðskiptaráðs og starfsfólk ráðsins kom í framkvæmd á tímabilinu. Út af því hvernig ástandið hefur verið höfum við lagt áherslu á, t.d. í tengslum við Viðskiptaþingin okkar, að móta málefnastarfið í takt við tíðarandann og hvað það er sem brennur mest á þjóðfélaginu á hverjum tímapunkti. Ég tel okkur hafa tekist vel til með að koma með gagnleg innlegg inn í umræðuna.“

Sem dæmi hafi orkumálin, sem nú eru áberandi í þjóðfélagsumræðunni, verið í brennidepli á Viðskiptaþingi árið 2023. „Þetta var þungt en á sama tíma mjög þarft þing sem ég held að hafi vakið marga til umhugsunar. Með þessum hætti höfum við reynt að búa til farveg fyrir málefnalega og upplýsta umræðu um hin ýmsu málefni.“

„Fólk er að verða sífellt meðvitaðra um hversu brýnt verkefnið er,“ segir Ari um þær áskoranir sem stjórnvöld og íslenska þjóðin öll stendur nú frammi fyrir í orkumálum. „Það hefur ríkt algjör kyrrstaða heillengi og engar ákvarðanir teknar. Við það verður ekki lengur unað og virðist loks vera að renna upp fyrir fólki að við þurfum að bregðast við ef við ætlum að stuðla að hagvexti til framtíðar.“

Hann bendir á að mörg ár taki að komast af ákvörðunarstigi yfir á framkvæmdastigi í orkumálum og jafnframt taki framkvæmdir oft nokkur ár. „Allt ferlið í kringum það að reisa nýja virkjun tekur mörg ár og því höfum við hjá Viðskiptaráði verið að ýta á stjórnvöld að binda endi á þetta langa stöðnunartímabil. Um of langt skeið hafa stjórnvöld komið sér undan því að taka raunverulegar ákvarðanir í orkumálum. Ég hef saknað þess að stjórnvöld beiti framsýnni leiðsögn um hvert við séum að stefna í orkumálunum.“

Uppbyggileg gagnrýni í garð hins opinbera

Hið opinbera og þjónusta þess verður í brennidepli á Viðskiptaþingi 2024. Að sögn Ara er það eitt af meginhlutverkum Viðskiptaráðs að veita hinu opinbera aðhald. „Þetta hefur verið einn af burðarásum í starfi ráðsins frá því það var stofnað fyrir um 107 árum síðan. Hið opinbera væri ekki til án fyrirtækjanna og fólksins í landinu og því ber okkur öllum að veita ríkinu aðhald. Það er mikilvægt að það sé farið vel með skattfé.“ Viðskiptaráð leggi áherslu á uppbyggilegt samtal við stjórnvöld og hið opinbera. „Við viljum ekki bara koma fram með gagnrýni heldur verður hún að vera uppbyggileg. Þannig getum við t.d. bent á hvaða leiðir sé hægt að fara til að gera betur í formi tillagna.“

Engum blöðum um það sé að fletta að meginmarkmið samfélagsins alls og helsta hagsmunamál sé að stuðla að minni verðbólgu. „Við hjá Viðskiptaráði hefðum viljað sjá mun meira aðhald í ríkisrekstrinum af hálfu stjórnvalda. Við höfum bent á ýmsar leiðir til þess. Að sama skapi höfum við bent á að þó að hlutirnir hafi alltaf verið gerðir á ákveðinn hátt í ríkisrekstrinum þýði það ekki sjálfkrafa að það sé besta leiðin,“ segir Ari og bætir við:

„Fjórði hver einstaklingur á íslenskum vinnumarkaði starfar hjá hinu opinbera og um 15% þeirra starfa í opinberum atvinnurekstri  sem gæti verið á hendi einkaaðila. Stundum má einfaldlega staldra við og spyrja sig hvort ríkið þurfi endilega að vera í ýmsum atvinnurekstri, þar á meðal í beinni samkeppni við einkaframtakið. Við erum a.m.k. á þeirri skoðun að oftar en ekki séu einkaaðilar betur til þess fallnir að stunda atvinnurekstur en ríkisvaldið. Gott dæmi um þetta er rekstur Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli sem nú stendur til skoðunar að færa í hendur einkaaðila. Mín persónulega skoðun er sú að ríkið eigi ekki að standa í samkeppni við einkaaðila á dagvörumarkaði. Í raun velti ég einnig fyrir mér hvort ríkið þurfi yfir höfuð að vera eigandi Isavia en víða í nágrannalöndum okkar er rekstur flugvalla á höndum einkafyrirtækja.

Að sama skapi þykir mér tímaskekkja að ríkið reki áfengisverslanir. Stjórnvöld verða að koma fram með skýrari stefnu um framtíðarfyrirkomulag áfengissölu í stað þess að viðhalda því ástandi sem ríkir nú, þar sem fyrirtæki vita í raun ekki í hvorn fótinn þau eiga að stíga.“

Frá Viðskiptaþingi árið 2023 þar sem orkumálin voru í brennidepli. Ari segir þingið hafa verið þungt en um leið þarft þar sem það hafi vakið marga til umhugsunar.
© Ragnar Axelsson (RAX)

Þensla ríkisins og gullhúðun

Ríkisrekstrinum hefur vaxið fiskur um hrygg á undanförnum árum en í því samhengi bendir Ari á þá staðreynd að starfsfólki stjórnarráðsins hafi fjölgað úr 552 árið 2019 í 724 árið 2023. Starfsfólki stjórnarráðsins hefur því fjölgað um rúmlega 30% á tímabilinu. „Þetta væri í fínu lagi ef þetta aukna umfang opinberrar stjórnsýslu myndi bæta gæði lagasetningar og regluverks og þannig stuðla að aukinni verðmætasköpun. Allir mælikvarðar sem við höfum skoðað benda hins vegar ekki til þess að sú sé raunin. Þessi fjölgun hefur ekki skilað betri stjórnsýslu. Auk þess benda mælikvarðar til þess að fjölgun ríkisstarfsmanna hafi ekki heldur skilað sér í bættri þjónustu.“

Viðskiptaráð hefur að sama skapi beitt sér fyrir einfaldara regluverki. Í því samhengi hefur ráðið bent á að svokölluð „gullhúðun“ regluverks á vegum Evrópusambandsins (ESB) sem innleitt er í íslensk lög kosti íslenskt samfélag stórar fjárhæðir. „Það eru langflestir sammála um að EES samningurinn hafi verið mikið heillaspor fyrir íslensku þjóðina. Aftur á móti er oft gengið mun lengra í innleiðingu á regluverki sem við erum að taka upp frá ESB hér á landi heldur en hjá nágrannaþjóðum okkar. Út frá smæð þjóðarbúsins er enn óheppilegra að við séum að ganga lengra en nágrannaþjóðirnar þar sem þetta bitnar verulega á samkeppnishæfni landsins,“ segir Ari.

Dæmin um gullhúðun séu mýmörg. „Í nýlegu lyfjafrumvarpi var gengið mun lengra en ESB reglugerðin kvað á um og áætlaður kostnaður vegna þess er um hálfur milljarður króna.“

Þó séu jákvæð teikn á lofti. „Utanríkisráðherra skipaði nýverið starfshóp um afhúðun regluverksins. Einn af þremur meðlimum hópsins er María Guðjónsdóttir, lögfræðingur Viðskiptaráðs, og er ætlunin að starfshópurinn fari í gegnum regluverkið og komi fram með tillögur um afhúðun. Við bindum miklar vonir við þessa vinnu og hlökkum til að sjá þær tillögur sem starfshópurinn mun koma til með að leggja fram. Þá fögnum við einnig skýrslu umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um gullhúðun regluverks í umræddu ráðuneyti. Niðurstöður skýrslunnar leiddu það í ljós að í 40% tilfella var gengið lengra en lágmarkskröfur EES kröfðust við innleiðingu regluverks í ráðuneytinu.“

Viðskiptaráð hefur um árabil verið partur af samanburðarkönnun á vegum IMD viðskiptaháskólans þar sem staða OECD ríkjanna hvað varðar samkeppnishæfni er dregin fram. Ráðið birtir niðurstöðu þessara kannana í júní á hverju ári. „Kannanirnar hafa leitt það í ljós síðustu ár að Ísland hefur sigið neðar og neðar á ákveðnum mælikvörðum yfir samkeppnishæfni. Meðal helstu ástæðna þess er einmitt gullhúðun regluverksins. Því höfum við bent á mikilvægi þess að auka skilvirkni og einfalda regluverkið.“

Innan við helmingur launakostnaðar endar í vasa launþega

Um þessar mundir eiga aðilar vinnumarkaðarins í viðræðum um gerð kjarasamninga sem ná til stórs hluta almenns vinnumarkaðar. Í síðustu viku skrifaði Ari grein sem birtist á síðum Morgunblaðsins þar sem hann bendir á hve kostnaðarsamir slíkir samningar hafa reynst atvinnurekendum. Gott sé að enn virðist samstaða um meginmarkmið samninganna, að ná niður verðbólgu og vöxtum, en skilningurinn á leiðunum sem færi okkur nær þeim markmiðum sé ekki endilega sá sami. Þar standi hnífurinn í kúnni. Gjarnan séu nefndar upphæðir sem eigi að rata í vasa launþega en atvinnurekendur viti vel að endanlegur kostnaður kjarasamninga sé margfaldur á við þann sem minnst er á í fréttum tengt kjaraviðræðum.

„Undanfarin ár höfum við gert mjög dýra samninga og sá síðasti sem var gerður fyrir um ári síðan var dýr skammtímasamningur. Samningurinn þar á undan, lífskjarasamningurinn, var síðan dýr langtímasamningur. Að mínu mati hafa atvinnurekendur samið af sér í þessum tveimur samningum og atvinnulífið ekki staðið undir þeim. Við erum eitt örfárra ríkja þar sem kaupmáttur hefur verið að aukast á þessum krefjandi árum meðan íbúar flestra landa hafa verið að taka á sig kaupmáttarskerðingu. Á sama tíma hafa miklar vaxtahækkanir bitnað verulega á fyrirtækjunum og laun hækkuðu að jafnaði um tæp 10% á síðasta ári. Samt vill verkalýðsforystan banna fyrirtækjum að hækka verð. Ég skil ekki alveg hvernig þetta dæmi á að ganga upp. Fyrirtæki ganga út á það að skila einhverskonar arðsemi svo þau geti m.a. haft fólk í vinnu.“

Í greininni hafi Ari og Viðskiptaráð viljað vekja athygli á því að innan við helmingur af mánaðarlegum launakostnaði fyrirtækjanna af hverjum starfsmanni endi í vasa launþegans. Launahækkanir sé því ekki eina leiðin til að auka ráðstöfunartekjur launafólks.

„Það gleymist oft að horfa á heildarmyndina. Útborguð laun skipta starfsmenn augljóslega mestu máli. Vinnuveitendur horfa aftur á móti á heildarkostnað vegna launa og launatengdra gjalda. Eins og bent er á í greininni er bilið þar á milli ansi breitt og þeim sem greiða út launin er skylt að innheimta flest þessara gjalda. Til að geta boðið starfsmanni meðalgrunnlaun ársins 2022, sem voru 685 þúsund krónur á mánuði, þarf fyrirtæki að leggja út ríflega eina milljón á mánuði. Eftir lögboðnar skatta- og lífeyrisgreiðslur starfsmanna fær viðkomandi starfsmaður innan við helming af launakostnaði útgreiddan, eða 484 þúsund krónur.“

Því eigi það ekki að koma  á óvart að upplifun atvinnurekenda og verkalýðsforystunnar sé ólík, þar sem þeir semji um sinn hlutinn hvor.

„Viðskiptaráð telur sjónarmið atvinnurekenda gjarnan fyrir borð borin í umræðunni og sá kostnaður sem þeim er gert að innheimta fyrir hönd annarra er of hár. Jafnframt leynast víða tækifæri til að vænka hag launþega án þess að storka enn frekar samkeppnishæfni og verðstöðugleika. Það má gera með því að draga úr þeim fleyg sem rekinn er á milli starfsmanna og atvinnurekenda og hækka grunnlaun um sem því nemur. Í tilfelli meðalgrunnlauna ársins í fyrra nemur fleygurinn um 550 þúsund krónum.“

Að sögn Ara megi þannig í fyrsta lagi lækka tryggingagjaldið, sem sé einfaldlega skattur á að hafa fólk í vinnu. Í öðru lagi megi lækka tekjuskatt og útsvar sveitarfélaga. Svo að aðgerðirnar skili sér í raunverulegum kjarabótum þurfi þeim að fylgja samstaða um að hið opinbera dragi úr útgjöldum á móti. „Þannig mætti fyrr ná tökum á verðbólgunni. Það ætti að vera sameiginlegt keppikefli allra að skapa umhverfi þar sem vextir og verðbólga geta tekið að lækka.“

Ari tók við sem formaður Viðskiptaráðs fyrir fjórum árum af Katrínu Olgu Jóhannesdóttur sem hafði verið formaður ráðsins frá árinu 2016.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Valdlaus ríkissáttasemjari

Að mati Ara væri heppilegast ef komið væri upp einhvers konar kerfi þar sem horft sé til ákveðinna stærða til að meta hve mikið, eða hvort, svigrúm sé til staðar fyrir launahækkanir. Þannig þyrfti ekki að finna upp hjólið í hvert sinn sem sest er við samningaborðið.

„Það er enginn atvinnurekandi sem hefur ekki áhuga á að borga starfsfólki sínu mannsæmandi laun. Það vilja flestallir gera vel við sitt starfsfólk. Það hjálpar engum að búið sé að stilla atvinnurekendum og launþegum upp á móti hvor öðrum eins og gjarnan er gert í umræðunni. Það er ógerlegt að reka fyrirtæki án góðs starfsfólks. Aftur á móti er það ekki síður hagsmunamál fyrir launþega að gerðir séu samningar sem fyrirtækin ráða við, því annars leggja fyrirtækin hreinlega upp laupana.“

Ari segir með ólíkindum, miðað við hvernig síðustu kjaraviðræður enduðu, að ekki sé búið að ráðast í lagabreytingu til að tryggja ríkissáttasemjara auknar valdheimildir. „Að vinnumarkaðsráðherra hafi ekki enn, þrátt fyrir að hafa nærri heilt ár til stefnu, lagt fram frumvarp þess efnis er gjörsamlega út í hött. Það var vitað að allar líkur væru á að yfirstandandi viðræður Samtaka atvinnulífsins (SA) við breiðfylkinguna myndu enda hjá ríkissáttasemjara en samt ákveður ráðherrann vísvitandi að leggja frumvarpið ekki fram fyrr en í mars, þegar kjaraviðræðum verður væntanlega lokið. Valdheimildalaus ríkissáttasemjari er því að fara að fá SA og breiðfylkinguna inn á borð til sín. Því miður verður að teljast líklegt að sami sirkus fari af stað og fyrir ári síðan. Það er grátlegt að ekki hafi verið dreginn lærdómur af kjaraviðræðum síðasta árs.“

Mikilvægt að sem flestar raddir heyrist

Þrátt fyrir að Ari hafi vikið úr stjórn Viðskiptaráðs kveðst hann ætla að halda áfram að fylgjast með starfi Viðskiptaráðs og leggja því lið eftir bestu getu. Þá sjái hann fyrir sér að halda áfram að taka þátt í opinberri umræðu og hvetur stjórnendur úr atvinnulífinu til að gera slíkt hið sama. „Opinber umræða er því miður oft á tíðum mjög óvægin í dag og þar af leiðandi eru margir stjórnendur í íslensku atvinnulífi smeykir við að blanda sér inn í umræðuna. Auk þess eru atvinnurekendur margir hverjir mjög uppteknir og sjá kannski heldur ekki hvaða hagsmuni þeir hafa af því að taka þátt í opinberri umræðu. Það er neikvætt ef aðeins örfáar raddir leggja orð í belg því það er ákjósanlegast að mismunandi skoðanir og hagsmunir fái að koma fram í umræðunni.“