*

sunnudagur, 18. ágúst 2019
Innlent 26. mars 2019 11:42

Komnir með fimmtung í Heimavöllum

Þeir sem boðið hafa í um 27% af öllu hlutafé í Heimavöllum hafa eignast bréf fyrir 3 milljarða í félaginu.

Ritstjórn
Guðbrandur Sigurðsson er fráfarandi framkvæmdastjóri Heimavalla.
Haraldur Guðjónsson

Sigla ehf. og tengdir aðilar eiga nú 21,58% í Heimavöllum, en bréfin eru að andvirði ríflega þriggja milljarða króna miðað við markaðsgengi Heimavalla eins og það er skráð í kauphöllinni nú, sem er 1,26 krónur.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um hefur aðalfundur félagsins nú samþykkt tillögu um afskráningu félagsins úr kauphöll, en til að liðka fyrir því bauð Sigla ehf. og tengdir aðilar í allt að 27% bréfa í félaginu fyrir allt að 4 milljarða króna. Í tilkynningu til kauphallarinnar segir að viðskipti dagsins hafi engin áhrif á það boð.

Sigla er í eigu félaga í eigu fjárfestanna Finns R. Stefánssonar og Tómasar Kristjánssonar, en með þeim í tilboðinu er framtakssjóðurinn Alfa, Varða Capital ehf, og eignarhaldsfélagið VGJ ehf.

Buðu kaupendurnir 1,30 krónur fyrir hvert bréf, en útboðsgengi félagsins þegar það fór á markað var frá 1,33 krónum upp í 1,41 krónu á hlut.

Þegar fyrst var greint frá tillögu um að afskrá Heimavelli og kaupa út hluthafa í byrjun febrúar kom fram að Sigla og tengdir aðilar ættu 18,9% hlut í Heimavöllum

Miðað við tilboðsgengið 1,3 er andvirði hlutarins 3,15 milljarðar. Miðað við lægsta útboðsgengið á sínum tíma er hluturinn 3,23 millarða króna virði. Rýrnun andvirðis hlutanna frá útboðsgenginu til markaðsgengisins svokallaða nú nemur því ríflega 170 milljónum króna.