*

föstudagur, 10. júlí 2020
Innlent 15. mars 2019 16:39

Lítill áhugi lífeyrissjóða á Heimavöllum

Stjórn Heimavalla telur áhugaleysi lífeyrissjóða í að fjárfesta í verðbréfum félagsins, skýra mislukkaða skráningu í Kauphöllina.

Ritstjórn
Guðbrandur Sigurðsson, fráfarandi framkvæmdastjóri Heimavalla, hringir hér inn fyrstu viðskipti með bréf félagsins.
Haraldur Guðjónsson

Framkvæmd skráningarferils Heimavalla á hlutabréfamarkað tókst vel, en árangurinn af útgáfunni og verðþróun hlutabréfa á markaði eftir skráningu var félaginu eða hluthöfum þess ekki hagstæð. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu stjórnar Heimavalla á aðalfundi félagsins, sem fór fram í gær.

Líkt og Viðskiptablaðið hefur greint frá, þá samþykktu hluthafar Heimavalla að afskrá félagið úr Kauphöll Íslands á fundinum.

Stjórn Heimavalla setur fram kenningu um hvers vegna skráningin í Kauphöllina hafi ekki reynst hagstæð. Segir stjórnin að það verði þó að teljast líklegt að lítill áhugi stórs hluta lífeyrissjóða landsins á að fjárfesta í hlutabréfum og skuldabréfum Heimavalla hafi haft neikvæð áhrif á verðmyndun þessara verðbréfa. „Verður áhugaleysi þessara leiðandi fagfjárfesta að teljast nokkuð sérstakt, þar sem alþjóðlega eru verðbréf íbúðaleigufélaga almennt talin æskileg í vel samsettu og áhættudreifðu eignasafni langtímafjárfesta," segir jafnframt í skýrslu stjórnarinnar.  

„Meðan að markaðsverð hlutabréfa félagsins er lægra en bókfært virði þeirra, þá gefur það augaleið að það borgar sig engan veginn að stækka eignasafn félagsins og fjölga leiguíbúðum; slíkt myndi einungis rýra verðmæti hluthafa. Þvert á móti hvetur núverandi markaðsverð hlutabréfa félagið til að losa sig við allar eignir sem ekki skila viðunandi ávöxtun og nota söluandvirðið til að lækka fjármagnskostnað og til kaupa á eigin hlutum," segir einnig í skýrslunni.