„Þetta er hugmynd sem kviknaði hjá pabba fyrir átta árum," segir Margrét Hrund Arnarsdóttir, framkvæmdastjóri Hreppamjólkur. Fjölskylda Margrétar hefur rekið kúabú í tugi ára sem kallast Fjölskyldubúið og er fjölskyldufyrirtækið nú að hefja sölu á afurð beint frá býli í almennum verslunum á höfuðborgarsvæðinu, hina svokölluðu Hreppamjólk.

Mjólkin er gerilsneydd og ófitusprengd og verður seld í lausu máli í Krónunni Lindum. Þar verður mjólkursjálfsali með Hreppamjólk, en við hlið mjólkursjálfsalans verður annar sjálfsali með fjölnota glerflöskum. Neytandinn hefur val um að koma með eigið ílát eða kaupa sér flösku. Þessi aðferð er því umhverfisvænni aðferð en meðhöndlun á hefðbundinni mjólk.

Ekki samkeppnisvara við hefðbundna mjólk

Margrét segir Hreppamjólkina vera unna sem minnst þar sem hún er ekki fitusprengd. „Það eina sem er gert við hana er að gerilsneyða hana." Hún bætir við að Hreppamjólk sé ekki í samkeppni við hina hefðbundnu mjólk út í búð. „Þetta er gerilsneydd ófitusprengd mjólk, fitan flýtur upp ef maður hrærir ekki í mjólkinni." Hún segir að í vélinni í sjálfsalanum sé mjólkin þó stöðugt hrærð og því fær neytandinn mjólkina hrærða úr sjálfsalanum í flöskuna.

Faraldurinn hafi ekki flýtt fyrir

„Stefnan sett á að hefja sölu á Hreppamjólk fyrir jól." Margrét segir stefnt að því að bjóða upp á vöruna í fleiri verslunum á höfuðborgarsvæðinu í framtíðinni. Fyrst þurfi hins vegar að kanna áhuga fólks og verður varan því einungis til sölu í Krónunni Lindum til að byrja með.  „Upprunalega ætluðum við að opna söluskúr hér rétt hjá sveitabænum og færa okkur svo á höfuðborgarsvæðið, en svo er búið að vera svo mikil seinkun á öllum búnaði vegna faraldursins að við ákváðum að byrja bara í einni búð í bænum."

Hún segir ýmsar hugmyndir á borðinu þegar kemur að upplifun vörunnar. „Seinna meir verður varan til sölu í sjálfsala um það bil kílómetra frá sveitabænum. Við ætlum að bjóða upp á kökur í sjálfsalanum þannig að þú getur fengið þér skúffuköku og mjólkurglas og horft yfir sveitabæinn. Við stefnum á að þetta verði í sumar og auk þess verði hoppubelgir á svæðinu fyrir börn, þannig að í þessu er fólgin meiri afþreying og upplifun."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .