Ríkissjóður verður rekinn með 20,6 milljarða króna króna afgangi á árinu eða 17,1 milljörðum betri á rekstrargrunni en samkvæmt fjárlögum. Þetta kemur fram í  frumvarpi til fjáraukalaga sem lagt var fram á Alþingi seint í gær.

Stærstur hluti bættrar afkomu frá fjárlögum skýrist af um 15 milljarða hærri arðgreiðslum frá fjármálastofnunum en reiknað hafði verið með í forsendum fjárlaga, aðallega frá Landsbanka Íslands. Að frátöldum þeim arðgreiðslum er gert ráð fyrir að heildarafkoma ársins verði áþekk og áætlað var í fjárlögum.

Vaxtajöfnuður ríkissjóðs batnar um 5 milljarða króna samkvæmt endurskoðaðri áætlun ársins, eða sem nemur 0,2% af VLF. Þar vegast á annars vegar 5,7 milljarða lækkun vaxtagjalda, sem skýrist einkum af lægra vaxtastigi á yfirstandandi ári en gert hafði verið ráð fyrir, og hins vegar 700 milljóna lækkun vaxtatekna.

Aukið framlag vegna vegaframkvæmda

Útgjaldabreytingar í frumvarpinu eru einna helst þær að reiknað er með 2,1 milljarða króna umframútgjöldum vegna sjúkratrygginga miðað við útgjaldaþróun fyrri hluta þessa árs. Sú aukning skýrist að stærstu leyti af samningi sérfræðilækna sem gerður var í ársbyrjun 2014. Þá er einnig gert ráð fyrir 1,8 milljarða framlagi til framkvæmda og viðhalds í vegakerfinu sem ferðamenn fara mikið um og 850 milljóna króna framlagi til brýnna framkvæmda á ferðamannastöðum. Gert er ráð fyrir 1,1 milljarða framlagi til Vegagerðarinnar vegna vetrarþjónustu og 825 milljóna króna framlagi til að bregðast við fjölgun hælisleitenda og móttöku flóttamanna.

Þá fær embætti sérstaks saksóknara tæplega 400 milljónir króna í viðbótarframlag til að ljúka þeim verkefnum sem embættið hefur með höndum á þessu ári.

Hér má sjá frumvarpið í heild sinni.