Framboð íbúðagistingar á höfuðborgarsvæðinu hefur vaxið stórum síðustu misserin. Mikið hefur verið talað um útleigu íbúða í gegnum vefinn Airbnb, en fyrir eru á markaðnum nokkur umfangsmikil fyrirtæki sem leigja út íbúðir í miðbænum. Velta þeirra hleypur á hundruðum milljóna króna.

Í nóvember kom út skýrsla Háskólans á Bifröst þar sem fram kom að á Íslandi væru 3.400 íbúð- ir leigðar til ferðamanna í gegnum  Airbnb. Sá fjöldi virðist fara hratt vaxandi.

„Síðustu tölur sem ég sá er að það eru 3.900 einingar skráðar á Airbnb á Reykjavíkursvæðinu,“ segir Ellert Finnbogason, framkvæmdastjóri Lúna hótelíbúða, í samtali við Viðskiptablaðið. Það eru álíka margar íbúðir og sem nemur fjölda hótelherbergja á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt tölum Hagstofunnar.

Allir viðmælendur Viðskiptablaðsins innan geirans gera ráð fyrir 10-15% tekjuvexti á þessu ári. Þá er framkvæmdahugur hjá mörgum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .