*

föstudagur, 24. maí 2019
Innlent 17. nóvember 2018 14:31

AGS segir SÍ þurfa að tala skýrar

AGS kallar eftir því að Seðlabankinn veiti almenningi betri upplýsingar um stefnu sína, sér í lagi í gengismálum.

Ritstjórn
Már Guðmundsson Seðlabankastjóri.
Haraldur Guðjónsson

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kallar eftir því að Seðlabankinn veiti almenningi betri upplýsingar um stefnu sína, sér í lagi hvað varðar gengismál, semkvæmt stöðuskýrslu AGS sem kom út í vikunni.

Að mati AGS ætti Seðlabankinn að taka skýrt fram að bankinn hafi ekkert gengismarkmið og inngrip á gjaldeyrismarkaði ættu að takmarkast við að halda nægjanlega stórum gjaldeyrisforða og að hindra tímabundið ójafnvægi á gjaldeyrismarkaði. Ein leið að því markmiði væri að taka upp stefnu í gjaldeyrisinngripum sem væri í samræmi við verðbólgumarkmið bankans, sem miðast við 2,5% verðbólgu með 1,5% vikmörkum í hvora átt.

Seðlabankinn hefur þrívegis gripið inn á gjaldeyrismarkaði hér á landi frá því í september, nú síðast í vikunni, og keypt krónur fyrir níu milljónir evra, ríflega 1,2 milljarðar króna. Bankinn hefur sagt inngripin vera til að stöðva of hraða gengislækkun innan dags. AGS segir að að inngrip bankans í haust hafi verið í samræmi við yfirlýsta stefnu bankans. 

Þá segir AGS að hann hafi talið gengi krónunnar of sterkt í skýrslu sinni fyrir ári en nú endurspegli gengi krónunnar að mestu undirliggjandi hagstærðir hér á landi.

AGS hvetur Seðlabankann einnig til að afnema innflæðishöft sem sett voru á í júní árið 2016. Fátt bendi til þess að þörf sé á þeim. Seðlabankinn lækkaði þau um helming í byrjun nóvember og hefur þau nú í för með sér að 20% af ákveðnum nýfjárfestingum eru geymd á vaxtalausum reikningi í Seðlabankanum í eitt ár. 

Stikkorð: Seðlabanki
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim