*

sunnudagur, 21. apríl 2019
Innlent 15. september 2018 21:44

„Aldrei skuldað þeim yfir tvo milljarða"

Forstjóri Wow air segir samstarfið við Isavia gott, sakar fjölmiðla um að vilja skemma fyrir félaginu og gagnrýnir Icelandair.

Ritstjórn
Skúli Mogensen er forstjóri og eigandi Wow air.
Haraldur Guðjónsson

Skúli Mogensen forstjóri og eigandi flugfélagsins Wow air segir að sumir fjölmiðlar keppist við að tortryggja félagið og segir hann það rangt sem haldið hefur verið fram í dag að félagið hafi skuldað Isavia tvo milljarða í lendingargjöld.

Einnig gagnrýnir Skúli Icelandair og segir ekkert félag hafa fengið jafnmikla ríkisaðstoð í Íslandssögunni og flugfélagið. Jafnframt segir Skúli að hann trúi því ekki að nokkur fjölmiðill sé svo skammsýnn að vilja vísvitandi skemma fyrir uppbyggingu félagsins.

Þetta kemur fram á facebook síðu Skúla, og vísar á bug fréttum Morgunblaðsins um að félagið hafi skuldað Isavia tvo milljarða, segir hann að það hafi aldrei gerst og vísar í þessa tilteknu upphæð. Í fréttinni var fullyrt að Wow air hafi ekki greitt lendingargjöld frá því í vor, samtals tvo milljarða, og þar af sé helmingurinn gjaldfallinn.

Eins og Viðskiptablaðið greindi fyrst frá segist Skúli nú sjá í land í milljarða skuldabréfaútgáfu félagsins sem hann segir nú að ljúki á þriðjudag, en tímabil útgáfunnar hefur núþegar nokkrum sinnum verið frestað.

„Ég get ekki orða bundist lengur að sjá hvernig sumir fjölmiðlar keppast um að tortryggja WOW air og það sem við höfum byggt upp undanfarin ár. Ég hreinlega trúi ekki að nokkur blaðamaður eða fjölmiðill sé svo skammsýnn að vilja vísvitandi skemma fyrir áframhaldandi uppbyggingu félagsins. Nýjasta "fréttin" er að við eigum að skulda Isavia yfir tvo milljarða. Þessu er slegið upp með stórri fyrirsögn í æsifréttastíl á forsíðu Morgunblaðsins í dag og er vitnað í nafnlausan heimildarmann. Við leggjum ekki í vana að tjá okkur um einstaka birgja eða þjónustusamninga en þetta er einfaldlega rangt. Við eigum mjög gott samstarf við Ísavía og höfum aldrei skuldað þeim yfir tvo milljarða króna og það er til skammar að Morgunblaðið sé að slá upp slíkum fyrirsögnum án áreiðanlegra heimilda.

Svo í ofanálag kemur tímabundinn forstjóri Icelandair og fer að kvarta yfir mismunun og að við séum að selja flugmiða of lágu verði. (þá vitum við hver staðan væri ef WOW hefði ekki komið til sögunnar!) Við getum og munum halda áfram að selja flugmiða á frábærum verðum einfaldlega af því að við erum með mun lægri rekstrar kostnað en Icelandair. Afkoma WOW air á þriðja ársfjórðungi verður góð og útlit fyrir að seinni hluti ársins verði einnig góður.
Það hefur ekkert félag í Íslandssögunni fengið jafn mikla ríkisaðstoð og verið bjargað jafn oft af ríkinu eins og Icelandair. Jafnframt er ríkisbankinn Íslandsbanki stærsti lánveitandi félagsins.

Ég hlakka til að klára útboðið okkar á þriðjudaginn og fá frið til að halda áfram að byggja upp WOW air með okkar frábæra teymi, öllum til hagsbóta."

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim