*

fimmtudagur, 22. nóvember 2018
Innlent 7. desember 2017 10:40

American Express hætta

Sérevrópskar reglur hrekja American Express af EES svæðinu, og verður útgáfa kortanna hætt hér á landi í kjölfarið.

Ritstjórn

Vegna tveggja nýrra reglugerða Evrópusambandsins um kortaviðskipti í aðildarríkjum þess hefur American Express ákveðið að draga sig út úr evrópska markaðnum en ákvörðunin gildir einnig hér á landi að því er Morgunblaðið greinir frá.

Önnur reglugerðin hefur áhrif á svokölluð milligjöld sem kemur sér mjög illa fyrir tekjuöflun fyrirtækisins en hin snýr um að samkeppnisaðilar fái aðgang að kerfum hvors annars til að auka samkeppni. American Express sættir sig ekki við breytingarnar og því mun félagið hætta starfsemi í þeim löndum sem reglugerðirnar munu ná til.

Hyggjast Kreditkort á næstunni senda öllum viðskiptavinum sínum sem eru með American Express kort bréf þessa efnis, en félagið, sem er í eigu Íslandsbanka, hefur hafið útgáfu á nýjum MasterCard kortum sem eiga að koma í staðinn.

Handhafar nýju kortanna munu ekki njóta sömu kjara í áætlunarflugi Icelandair líkt og þeir sem hafa nú svokölluð Premium American Express kort. Hins vegar tryggja þeir sér 30 þúsund vildarpunkta hjá Icelandair og aðgang að betri stofu félagsins í Leifsstöð og flýtiinnritun.

Sumir kaupmenn hafa ekki viljað taka við greiðslum með American Express kortunum og segja þeir að greiða þurfi ríflega 3% af veltu vegna notkunar þeirra en innan við 1% af veltu annarra korta.