*

mánudagur, 10. desember 2018
Innlent 20. október 2017 11:37

Aukin útgjöld nú væru eins og 2007

Dósent í hagfræði bendir á að loforð stjórnmálaflokka um aukin ríkisútgjöld myndu örva hagkerfið á versta tíma.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Með mikilli aukningu ríkisútgjalda næstu misseri, líkt og flestir flokkar eru að lofa fyrir komandi kosningar, væri ríkið að örva hagkerfið á versta tíma í hámarki uppsveiflunnar líkt og gerðist kosningaárin 1999 og 2007.

Þetta segir Ásgeir Jónsson dósent í hagfræði við Háskóla Íslands og formaður nefndar um endurskoðun peningastefnunnar í Morgunblaðinu. Segir hann að það myndi ógna stöðugleika og samkeppnishæfni landsins nú þegar hilli undir mjúka lendingu efnahagskerfisins.

„Aukin ríkisútgjöld myndu [...] þenja hagkerfið á nýjan leik og koma því úr jafnvægi,“ segir Ásgeir en hann segir að nú virðist sem tekið sé að hægja á efnahagslífinu eftir uppsveiflu síðustu ára en samkvæmt sígildri hagfræði eigi ekki að örva hagkerfið í uppsveiflu.

„Í síðustu uppsveiflum hafa ríkisfjármálin farið úr böndunum, ekki síst í aðdraganda kosninga. Það gerðist í síðustu tveimur uppsveiflum, en slaki í ríkisfjármálum kosningaárin 1999 og 2007 kom efnahagslífinu á nýtt flug í 1-2 ár sem endaði með harðri lendingu.“