Bæjarstjórn Kópavogs samþykkti einróma á fundi sínum í gær að kaupa Digranesveg 1 fyrir stjórnsýslu bæjarins. Kaupverð eru 585 milljónir króna.

Stjórnsýsla Kópavogs mun mun flytja smám saman í húsið, hluti þess losnar í maí og þá mun hluti fjármála- og stjórnsýslusviðs flytja í húsið.  Fyrirhugað er að selja núverandi húsnæði stjórnsýslunnar við Fannborg 2 og 4 en nýta áfram Fannborg 6 fyrir hluta hennar.

Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs sagði að húsnæðið kostaði minna en áætlaðar viðgerðir á núverandi bæjarskrifstofum:

„Ég er afar ánægður með þessa niðurstöðu. Húsið hentar stjórnsýslunni vel, staðsetningin er góð og húsið eitt af kennileitum bæjarins. Þá kostar það minna en áætlaðar viðgerðir á bæjarskrifstofunum og við losnum við áhættuna sem fylgir því að gera upp gömul hús. Slíkar viðgerðir fara nær undantekningarlaust fram úr áætlun.“