Á leið á ríkisráðsfund sem hófst klukkan 11 í morgun sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra ekkert hafa breyst síðan samstarf flokkanna var endurnýjað með það fyrir augum að klára ákveðin mál í haust og bjóða svo til kosninga. Segir hann jafnframt mikilvægt að ekki sé neinn hringlandaháttur með kosningar.

Verður að ríkja starfsfriður

„Þegar við endurnýjuðum samstarf flokkanna urðu breytingar í ríkisstjórninni og við boðuðum á sama tíma að við ætluðum að ljúka ákveðnum verkefnum og ganga svo til kosninga. Ég sé ekki neitt hafa breyst í þeim efnum og sé í sjálfu sér ekkert sem ætti að koma í veg fyrir að við kjósum seint í október, sem er dagsetning sem nefnd hefur verið oft í þessu sambandi,“ sagði Bjarni í fréttum RÚV.

Þó tók hann fram að samhliða því að standa við þessi fyrirheit verði að ríkja starfsfriður um að ljúka verkefnum haustsins. „Það gekk vel í vor. Eins og forsætisráðherra hefur bent á var þingið starfsamt eftir að við komumst að þessari niðurstöðu.“

Gild rök fyrir að starfa út kjörtímabilið

Aðspurður um yfirlýsingar Sigmundar Davíðs sem er hlynntur því að kosið verði í vor sagði Bjarni:

„Þetta er í sjálfu sér ekki nýtt fyrir mér að hann tefli fram þessu sjónarhorni. Það má alveg segja að það séu gild rök fyrir því að ríkisstjórnin eigi að starfa út kjörtímabilið. En það komu upp aðstæður og við brugðumst við þeim með þessum hætti. Það hefur ekkert breyst í neinum forsendum hvað það snertir."