Fjármálastefna ríkisstjórnarinnar næstu fimm árin hefur verið samþykkt á Alþingi, með 30 atkvæðum gegn 27 atkvæðum.

Ríkisstjórnin sem hefur aðeins eins þingmanns meirihluta stóðst það sem RÚV kallar fyrsta prófmál ríkisstjórnarinnar í frétt sinni, en þeir segja afar ólík sjónarmið hafa tekist á við atkvæðagreiðsluna.

Sigmundur Davíð kaus ekki

Meðal þeirra fimm þingmanna sem voru fjarverandi við atkvæðagreiðsluna voru Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Þórunn Egilsdóttir þingmenn Framsóknarflokksins, Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingar og Páll Magnússon þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Stjórnarandstaðan segir öll loforð um aukin framlög til heilbrigðis- og velferðarmála vera svikin meðan ríkisstjórnin segir útgjöldin vera aukin á sama tíma og nauðsynlegt aðhald sé sýnt.

Sagði Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna stefnuna ekki verða langlíft plagg og gagnrýndi stjórnarflokkana fyrir að hrúga inn varaþingmönnum fyrir atkvæðagreiðsluna.

Óttarr segir um hóflega millileið að ræða

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði þvert á málflutning flestra annarra stefnuna líklega ekki nógu aðhaldssama, meðan Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra og formaður Bjartrar framtíðar, sagði stefnuna fara bil beggja.

„...ef eitthvað er þá er þessi fjármálastefna mögulega ekki nægjanlega aðhaldssöm miðað við aðstæður,“ segir Bjarni.

„Við förum hérna hóflega millileið þar sem að tekjunum er stillt í hóf í efnahagslegum tilgangi en á sama tíma styðjum við við mikla aukningu í útgjöldum sem á sér stað árið 2017,“ segir Óttarr.

Sigurður Ingi kallar stefnuna athafnaleysi

„Hér er mjög aðhaldssöm hægrisinnuð fjármálastefna á ferð þar sem um leið er ekki nægjanlega vissa fyrir því að stefnan skili þeim árangri sem til er ætlast,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.

Sigurður Ingi Jóhannesson, formaður Framsóknarflokksins tekur einnig undir að stefnan sé of aðhaldssöm: „[...]við teljum að hún [...] sýni athafnaleysi sem er líka pólitík hægrimennskunnar.“

Logi segir stefnuna afhjúpa miðjuflokkana

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar segir stefnuna staðfesta svik við kosningaloforð.

„[...] hún afhjúpar líka flokkana tvo Bjarta framtíð og Viðreisn sem hafa nú endanlega fellt grímuna og birtast bara sem klassískir hægri flokkar,“ sagði Logi.