Bjarni Benediktsson forsætisráðherra las upp á Alþingi bréf Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, þess efnis að Alþingi verði rofið 28. október næstkomandi. Þá fara þingkosningar fram sama dag. Fyrr í dag ræddi Bjarni við forseta Íslands og fékk undirritun forseta fyrir þingrofi eins og áður hefur verið sagt frá.

Þingfundur hófst klukkan 15:30 og var tilkynning forsætisráðherra það eina sem var á dagskrá á honum. Bjarni sagði það einungis formsatriði að lesa upp bréfið. „Við þekkjum öll aðdraganda þess að ég hef í dag lagt fyrir forseta þetta bréf sem ég hef hér lesið upp. Það formsatriði er hér með uppfyllt að bréfið sé tilkynnt á Alþingi til að það taki þar með gildi,“ sagði hann. Hægt er að lesa nánar um málið í frétt Ríkisútvarpsins .

Forystumenn þeirra flokka sem eiga sæti á Alþingi hittust á fundi með forseta Alþingis fyrr í dag. Í frétt mbl.is var rætt við Unni Brá Konráðsdóttur, forseta Alþingis, en hún sagði að fundurinn hafi verið góður — en tók þó fram að engin skýr niðurstaða hafi komið út úr fundinum.