*

þriðjudagur, 18. desember 2018
Innlent 11. febrúar 2017 10:10

Borgin ætlar að semja við Airbnb

Borgarstjóri telur óheftan Airbnb leigumarkað leiða af sér neikvæð ytri áhrif á íbúðamarkaði og í samfélaginu.

Snorri Páll Gunnarsson
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri á RuMBA ráðstefnunni í Háskólanum í Reykjavík þann 2. febrúar.
Haraldur Guðjónsson

Reykjavíkurborg ætlar að ganga til samninga við leiguvefinn Airbnb um að fyrirtækið takmarki fjölda leyfilegra gistinátta hverrar íbúðar í borginni og innheimti gistináttagjald. Borgarstjóri telur æskilegt að leyfa Airbnb útleigu upp að vissu marki, en að borgin þurfi að geta haft eftirlits- og inngripstæki til umráða til að leiðrétta markaðsbresti Airbnb í borginni. Einnig telur hann mikilvægt að fleiri hótel verði byggð í Reykjavík, einkum utan miðsvæðisins, til að draga úr útleiguhlutdeild Airbnb og draga úr þrýstingi Airbnb leiguíbúða á íbúðaverð.

Fyrirhugaðar samningaviðræður grundvallast á nýjum lögum um takmarkanir á skammtímaleigu á íbúðarhúsnæði – svokölluðum Airbnb-lögum – sem tóku gildi um áramótin. Samkvæmt lögunum er heimilt að leigja hverja íbúð á leiguvefjum eins og Airbnb í 90 daga án þess að hafa tilskilið rekstrarleyfi. Þá er tekjuhámark leigjenda á útleigutímanum tvær milljónir króna. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu annast eftirlit með skammtímaleigu, sem er fyrst og fremst rafræn.

Þetta kom fram í erindi Dags B. Eggertssonar á MBA-Alumni ráðstefnunni í Háskólanum í Reykjavík sem haldin var 2. febrúar. Yfirskrift ráðstefnunnar var „Deilihagkerfið og tækniþróun á Íslandi“. Framsaga Dags var um deilihagkerfið í Reykjavík en meginþungi hennar var um Airbnb útleigu í Reykjavík; þróun hennar undanfarin ár, viðbrögð borgarinnar við þeirri þróun og áskoranirnar fram undan.

Krúttbylgjunni er lokið

Skammtímaleiga á íbúðum, húsum og herbergjum í gegnum Airbnb hefur hlaupið í vöxt undanfarin ár og þá sérstaklega í Reykjavík. Alls voru 2.662 íbúðir og herbergi skráð til útleigu á Airbnb í Reykjavík í janúar, eða 5% af heildarfjölda íbúða, og var meginþungi þeirra í miðbænum.

Í erindi sínu lagði Dagur fram kenningu um þróun Airbnb í Reykjavík, og skipti henni í þrjár bylgjur.

„Fyrsta bylgjan á árunum 2008 til 2011 var krúttbylgja,“ sagði Dagur. „Fólk var að skiptast á húsnæði og ferðast ódýrara. Þetta lækkaði kostnað, skapaði störf og færði fólki tekjur.“ Fólk í Airbnb leigu dvaldi lengur í Reykjavík heldur en ferðamenn á hefðbundnum hótelum og skildi meira eftir sig í hagkerfinu. Áhrifin voru jákvæð.

Síðan telur Dagur markaðsbrest hafa skapast á Airbnb leigumarkaði í seinni bylgjunni, árin 2011 til 2016, sem við séum enn stödd í að hluta til. Telur borgarstjórinn að óheftur og eftirlitslaus Airbnb markaður hafi skapað neikvæð ytri áhrif og samfélagslega óhagkvæma markaðsútkomu sem fólst í kostnaði og ónæði fyrir þriðja aðila. Fólk hafi farið að kaupa íbúðir í þeim tilgangi að leigja út fyrir Airbnb leigu, sem skapaði neðanjarðarhagkerfi í óheilbrigðri samkeppni við aðra gististarfsemi.

Einnig sló Dagur því föstu að Airbnb leiguíbúðir hefðu hækkað íbúðaverð í Reykjavík. Enn fremur hefur sú þróun átt sér stað að fólki hefur fækkað í miðborg Reykjavíkur frá árinu 2010, en íbúar þar eru aðeins um 65% af samtölu íbúa og ferðamanna. Þar af leiðandi er hætta á því að Airbnb hafi stuðlað að íbúaflótta úr miðborginni, „karakterslausum“ hverfum og túristavæðingu á menningarlegum og sögulegum svæðum í borginni.

Hann benti enn fremur á að þessi þróun hefði átt sér stað víða. „Þessari bylgju fylgdi að Airbnb neitaði að vinna með borgum.“ Afleiðingarnar voru þær að margar borgir settu lög og reglur á Airbnb. New York gekk hvað lengst í þeim efnum og bannaði alla skammtímaleigu á íbúðum. Á Íslandi tóku fyrrgreind lög um takmarkanir á skammtímaleigu íbúðarhúsnæðis gildi um áramótin.

Dagur telur lögin vera jákvætt skref. „Það þarf regluverk til að ná utan um þetta, annars étur þetta undan sjálfu sér,“ sagði Dagur. Þó telur hann ýmsa vankanta vera á regluverkinu. Sérstaklega telur hann að Airbnb-eftirlitið, sektir og öll framfylgd eigi að vera á forræði Reykjavíkurborgar og sveitarfélaga, líkt og þekkist í fjölmörgum borgum í Evrópu, frekar en á vegum sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu.

Þriðja bylgjan í þróun Airbnb er ekki hafin að öllu leyti, sagði Dagur, en hún einkennist af nánara samstarfi Airbnb og borga.

„Airbnb áttar sig á því að þeir lenda á vegg ef þeir vinna ekki með borgum. Út af því hefur Airbnb samið við nokkrar borgir um aukið samstarf,“ sagði Dagur.

Samstarfið felst í því að Airbnb rukki gistináttagjöld eða aðrar álögur af viðskiptavinum sínum fyrir borgir, innleiði reglur og takmarkanir sem borgir og lönd setja, og deili upplýsingum um útleigur. Þá fæst yfirsýn af hendi yfirvalda og útleigukerfið færist á yfirborðið. Til að mynda náðu Amsterdam og London slíkum samningum við Airbnb rétt fyrir árslok 2016. Sagði Dagur Reykjavíkurborg ætla að ganga til slíkra samninga við Airbnb á grundvelli Airbnb-laganna.

Þurfum fleiri hótel

Fjölgun ferðamanna samhliða skorti á hótel- og gistirými undanfarin misseri hefur ýtt undir vinsældir Airbnb leigu. Dagur telur að útlit sé fyrir að eftirspurn eftir gistinóttum muni aukast áfram. Til að svara eftirspurninni þyrfti að byggja fleiri hótelrými í Reykjavík og draga úr hlutdeild Airbnb í útleigu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.