Árið 1990 ákvað Aðalheiður Héðinsdóttir og eiginmaður hennar að opna kaffibrennslu í Keflavík, en hugmyndin var að byrja að bjóða Íslendingum upp á svokallað specialty-kaffi. Hugmyndin og ástríðan fyrir kaffinu hafði kviknað þegar þau hjónin bjuggu erlendis og að sögn Aðalheiðar opnuðu þau hjónin fyrirtækið á hárréttum tíma þegar Íslendingar voru sífellt að verða áhugasamari um góðan mat og veitingastaði. Þrátt fyrir það tók það landsmenn smástund að átta sig á nýjunginni sem Kaffitár bauð upp á.

„Það var svo ekki fyrr en árið 1993 sem við opnuðum fyrsta kaffihúsið í Kringlunni og með því varð til ákveðin vitund um fyrirtækið og ári eftir opnuðum við svo í Bankastrætinu og svo koll af kolli. Í dag eru kaffihúsin sex auk þess sem við rekum tvö bakarí, Kruðerí Kaffitárs, þannig að það má segja að við séum með átta útsölustaði fyrir kaffi,“ segir Aðalheiður.

Þú hættir sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins fyrir ári síðan, hver er aðkoma þín að því í dag?

„Ég er ennþá að sinna kaffiinnkaupunum og öllu gæðaeftirliti hvað það varðar en þar sem að við verslum beint af bændunum þá fylgir því meiri vinna en þegar notast er við þjónustu milliliða. Því til viðbótar tek ég að mér öll tilfallandi verkefni og kom t.d. mikið að því að setja staðinn í Perlunni á laggirnar.“

Ef litið er yfir ársreikninga Kaffitár þá má sjá að fyrirtækið skilaði lengi vel góðum hagnaði. Árið 2013 stofnuðuð þið svo bakaríið Kruðerí og það virðist svo hafa dregið úr hagnaðinum eftir það. Árið 2015 skilaði fyrirtækið svo nokkru tapi, hvernig er staðan í dag?

„Þetta er ennþá erfitt en við höfum gert nokkrar breytingar og réðum m.a. Kristbjörgu Eddu Jóhannsdóttur sem forstjóra.

Það tekur alltaf tíma að koma nýju fyrirtæki á koppinn og Kaffitár hefur þurft að borga fyrir uppbyggingu Kruðerís, enda er fyrirtækið dótturfyrirtæki svo það hefur haft sín áhrif á afkomuna. Við ákváðum einnig að stofna sérfélag utan um Út í bláinn og eins og gefur að skilja þá verður það rekið með tapi þetta árið.

En Kaffitár er farið að ganga betur enda höfum við ráðist í ýmsar erfiðar aðgerðir þar sem skorið hefur verið niður og reksturinn og framleiðslan straumlínulöguð. Við eigum von á því að fyrirtækið muni ganga betur í ár, en stór ný verkefni segja til sín þegar kemur að uppgjöri. Það má segja að þetta sé að komast á núllpunktinn og þar spilar opnunin í Perlunni einnig sitt hlutverk.

Kruðerí selur Kaffitári allar veitingarnar sem boðið er upp á auk þess að útbúa deserta fyrir Út í bláinn þannig að það eru ákveðin samlegðaráhrif. En það er ekki svona myljandi hagnaður hjá fyrirtækinu eins og var hér á árum áður.“

Hver er helsta ástæðan fyrir því að þínu mati?

„Ég held að þetta sé sambland af mörgu en framleiðslan okkar er t.d. dýr enda er hún að miklu leyti handgerð og við erum að kaupa gott kaffi og dýrari baunir heldur en samkeppnisaðilar okkar. Við höfum ekki hleypt því út í verðlagið og og við erum með flóknari framleiðslu, fleiri tegundir og annað. Kaffi sem við seljum í almennum búðum, er yfirleitt aðeins selt í sérverslunum erlendis og á mun hærra verði.“

Nú hafa mörg fyrirtæki á Íslandi kvartað undan örum launahækkunum undanfarin misseri, hafa þær haft teljandi áhrif á afkomu ykkar?

„Já, við höfum fundið mikið fyrir þessum launahækkunum enda mjög stór hluti af útgjöldum okkar launakostnaður og það er ekki hlaupið að því að hleypa þessum hækkunum út í verðlagið eða auka framleiðni í takt við launahækkanir. Á sama tíma hefur krónan verið að styrkjast sem er auðvitað hagstætt fyrir okkur enda erum við að flytja kaffið inn en á sama tíma flæðir líka til landsins erlent kaffi sem er framleitt í útlöndum þar sem launin eru lægri, vegna þess hve krónan er sterk. Þetta er mjög erfið samkeppni.“

Hvernig sérðu komandi ár fyrir þér, telur þú að afkoman verði betri?

„Ég hugsa að hún verði betri. Kristbjörg tók við sem forstjóri fyrir ári og síðan þá höfum við ráðist í þónokkrar breytingar og það tekur alltaf smá tíma fyrir slíkar breytingar að skila sér í rekstrinum. Við réðum auk þess inn öðruvísi fólk með meiri sérfræðiþekkingu, en þessar breytingar komast rauninni ekki að fullu til framkvæmda fyrr en núna í haust. Ég vona því að haustið verði gott og er full bjartsýni og hef mikla trú á öllum þremur fyrirtækjum okkar.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .