*

þriðjudagur, 26. mars 2019
Innlent 23. október 2018 09:15

Festi sendir frá sér jákvæða afkomuviðvörun

Festi hefur hækkað EBITDA spá félagsins um 200 milljónir króna. Ástæða betri afkomu er verðhækkun á heimsmarkaði á olíu og veiking íslensku krónunnar.

Ritstjórn
Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festi.
Aðsend mynd

Samkvæmt drögum að uppgjöri Festi fyrir þriðja ársfjórðung þessa árs liggur fyrir að EBITDA félagsins, að undanskilinni afkomu dótturfélagsins Hlekks ehf. (áður Festi),  verður um 1,5 milljarðar króna sem er 5% hærra en á sama tímabili í fyrra þrátt fyrir aukinn rekstrarkostnað. Ástæða betri afkomu er verðhækkun á heimsmarkaði á olíu og veiking íslensku krónunnar.

Rekstur Hlekks á tímabilinu var aftur á móti í samræmi við væntingar stjórnenda en undir það félag fellur rekstur Krónunnar, ELKO, Bakkans og Festi fasteigna.

Hækkun á EBITDA spá 2018

Í ljósi afkomu 3. ársfjórðungs hefur EBITDA spá vegna reksturs Festi fyrir árið 2018 verið hækkuð um 200 milljónir króna eða í 3.800 - 4.000 milljónir að undanskildum kostnaði við kaupin á Hlekk.

Sú spá gerir ráð fyrir því að olíuverð verði tiltölulega stöðugt og að gengi USD/ISK verði í kringum 115. Heimsmarkaðsverð á bensíni og gasolíu hefur hækkað um 14 - 20% frá byrjun ársins og  íslenska krónan hefur lækkað um 13% gagnvart USD á sama tíma og hafa þessir tveir þættir haft  talsverð jákvæð áhrif á afkomu ársins 2018 fram til þessa.

Rekstur Hlekks varð hluti af samstæðu Festi frá 1. september 2018 en ekki er tekið tillit til afkomu Hlekks í ofangreindri EBITDA spá Festi fyrir árið 2018. Rekstraráætlun Hlekks eftir yfirtökudag og til ársloka 2018 gerir ráð fyrir að heildarvelta verði um 15.100 milljónir króna og að EBITDA verði um 1.270 milljónir króna. 

Árshlutareikningur Festi fyrir 3. ársfjórðung 2018 verður birtur 28. nóvember næstkomandi.